„Öll erum við náttúruverndarsinnar“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á Alþingi í kvöld.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á Alþingi í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Með myndun þessarar ríkisstjórnar var stefnt að ákveðnum stöðugleika í íslenskum stjórnmálum,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á Alþingi í kvöld. Hún sagði þennan stöðugleika hafa verið forsendu lífskjarasamninga sem gerðir voru fyrr á árinu.

Samningarnir gæfu ástæðu til bjartsýni á komandi árum, ekki síst í viðleitni til að bæta lífskjör þeirra sem lakast stæðu.

Áslaug sagði hollt að takast á við ólíkar hugmyndir og innan stjórnarmeirihlutans tækist fólk á enda hugmyndafræði flokkanna þriggja ólík. Þingmenn hefðu náð að sýna pólitískan þroska og verið ótrúlega samstiga.

Ég veit að það hefur reynst stjórnarandstöðunni erfitt að skilja hvernig andstæðir pólar ná að vinna saman og ná árangri,“ sagði Áslaug.

Hún sagði rökræðu leiða í ljós að þegar talað er um umhverfismál takist ekki á eiturspúandi stóriðjusinnar og lattelepjandi lopatreflar. „Öll erum við náttúruverndarsinnar og flest gerum við okkur grein fyrir því að náttúruvernd er skynsamleg efnahagsstefna um leið og við nýtum auðlindir með sjálfbærum hætti,“ sagði Áslaug.

Hún sagði það sama eiga við í málum um útlendinga og innflytjendur. „Valkostirnir geta aldrei orðið þeir að við annaðhvort lokum landamærum eða þurrkum þau hreinlega út. Flestir átta sig á að hvorugt kemur til greina. Við eigum að taka vel á móti þeim sem hingað vilja koma enda sé fylgt ákveðinni formfestu, með skýrum, gagnsæjum og skilvirkum reglum. Ég tek þetta ekki bara sem dæmi af því að þessi mál eru nú á mínu borði, heldur vegna þess að það mun ekki nást neinn árangur né skynsamleg niðurstaða ef öfgar ráða í umræðunni,“ sagði dómsmálaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka