Öll pólitík verði hugsuð út frá loftslagsmálum

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, segir að endurhugsa þurfi …
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, segir að endurhugsa þurfi alla pólitík og hugsa hana út frá loftslagsmálum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við þurfum að endurhugsa alla okkar pólitík, hún á öll að vera hugsuð út frá loftslagsmálum,“ sagði Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri-grænna, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld. 

Kolbeinn sagði að það væri að bera í bakkafullan lækinn að bætast í þann hóp ræðumanna sem gerði loftslagsmálin að umtalsefni hér í kvöld, ef þau væru ekki jafn mikilvæg og raun ber vitni. 

„Bakkafullir lækir eru líka táknrænir fyrir þá hlýnun heimsins sem maðurinn virðist loksins farinn að átta sig á að verði að sporna við. Og líkt og lækir, bakkafullir sem aðrir, renna saman við aðra svo léttleikandi hjalið verður að beljandi krafti, eins þurfum við öll að taka höndum saman til að mynda þann kraft sem til þarf,“ sagði Kolbeinn. 

Hann sagði nýyrðið hamfarahlýnun gefa okkur tækifæri til að skapa lausnir, búa til nýja framtíð og halda óvissunni um endalokin áfram, sem heimspekingar hafa í gegnum aldirnar leitað svara við, það er; hvernig endar þetta allt saman. 

Loftslagsmál og loftslagsváin voru áberandi umræðuefni á Alþingi í kvöld …
Loftslagsmál og loftslagsváin voru áberandi umræðuefni á Alþingi í kvöld þar sem fóru fram umræður um stefnuræðu forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kolbeinn sagði að með því að endurhugsa alla pólitík út frá loftslagsmálum mætti byggja upp kolefnishlutlaust samfélag. „Það er verkefnið,“ sagði Kolbeinn. 

Þá hvetur hann til þess að gamaldags hernaðaruppbyggingu sem vinnur gegn loftslagsmarkmiðum verði hafnað og að bankakerfið verið nýtt í baráttunni. „Komum upp fjárfestingabanka loftslagsins sem lánar til verkefna sem sporna gegn útblæstri, þó arðsemin sé kannski eitthvað minni en helstu kröfur kapítalismans heimta. Hamfarahlýnun á að gera okkur öll að sósíalistum, ef okkur er alvara með að berjast gegn henni. Eldri, miðaldra, ung – öll erum við eitt.“

„Tími breytinganna er upp runninn“

Að lokum vitnaði hann í Bob Dylan, sem söng fyrir 55 árum: „Mæður og feður þessa lands ekki gagnrýna það sem þið ekki skiljið.“ 

„Hví er ég að vitna í þennan gamla skrögg?“ spurði Kolbeinn. „Tími breytinganna er upp runninn. Hlýðum kalli tímans; öll sem eitt. Það er einfaldlega ekki önnur leið til. Látum hamfarahlýnun verða orð sem sagnfræðingar framtíðarinnar þekkja sem vel heppnað nýyrði yfir nokkuð sem enginn í samtíma þeirra skilur því að barátta okkar tókst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka