Reiknaðu út skattalækkunina

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp næsta árs á mánudag. Töluverðar …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp næsta árs á mánudag. Töluverðar breytingar verða gerðar næstu tvö árin á tekjuskattskerfinu, og ekki hlaupið að því fyrir leikmanninn að átta sig á hver ávinningur hans af breytingunum verður. Úr því hefur nú verið bætt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hlynur Hallgrímsson, hagfræðingur og starfsmaður fjármálaráðuneytisins, hefur sett upp vefsíðu þar sem almenningi gefst kostur á að reikna út áhrifin af breytingum á tekjuskattskerfinu, sem til stendur að innleiða í tveimur skrefum á næsta og þarnæsta ári.

Líkanið er aðgengilegt hér.

Greint var frá áformunum á mánudag er fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp ársins 2020. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að koma upp sérstöku lágtekjuþrepi á tekjur undir 325.000 krónum og eiga tekjur þar að bera 31,44% skatt er innleiðingu lýkur 2021, 5,5 prósentustigum minna en nú er. Á móti verður persónuafsláttur lækkaður og hið nýja miðþrep hækkar um eitt prósentustig frá því sem nú er, úr 36,94% í 37,94%, sem verður til þess að ráðstöfunartekjur hálaunafólks aukast ekki jafnmikið og annarra.

Hér má sjá samanburð á skattbyrði manns með 340.000 krónur …
Hér má sjá samanburð á skattbyrði manns með 340.000 krónur í mánaðarlaun. Efri myndin miðar við nýja kerfið, en sú neðri að núverandi kerfi sé áfram fylgt. 340.000 krónur eru nokkurn veginn grunnlaun hjúkrunarfræðings, en fólk á þeim launum fær mest allra út úr breytingunni. Skjáskot

Krónur eru ekki bara krónur. Vandmeðfarið er að bera saman breytingar á skattkerfum milli ára, því jafnan eru laun á uppleið og því eru mörk skattþrepa, þ.e. þau laun sem þarf til að færast yfir í næsta þrep, uppfærð í samræmi við launaþróun. Þannig myndi sú sem héldi föstum launum næsta áratuginn greiða mun minna í skatt eftir tíu ár en hún gerir nú þótt engar efnislegar breytingar yrðu gerðar á skattkerfinu, enda hefði viðkomandi þá færst allnokkuð niður í launaskalanum (og kaupmáttur hefði dregist saman að sama skapi, með verðlagshækkunum). Ekki má svo gleyma að tekjuskattur leggst ekki á öll uppgefin laun, heldur aðeins þau 96% sem eftir eru þegar búið er að greiða skylduframlag í lífeyrissjóð upp á 4%.

Það er því ekki hlaupið að því fyrir leikmanninn að bera saman hver skattbyrði hans verður í nýja kerfinu og hver hún hefði verið í því gamla. Að þessu öllu er vandlega hugað á vefsíðu Hlyns, sem nýtir sér gagnavinnsluforritunarmálið R til að setja niðurstöðurnar fram á skýran og læsilegan máta.

Þótt Hlynur starfi í fjármálaráðuneytinu er verkefnið unnið í frítíma og á eigin ábyrgð, en ætla má að reynsla innanbúðarmanns hafi ekki komið að sök enda vinna starfsmenn ráðuneytisins allt árið að næsta frumvarpi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert