Komið í veg fyrir orkunýtingu á stórum svæðum

mbl.is/Jón Pétur

Landsvirkjun telur að miklir annmarkar séu á túlkun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á því hvernig friðlýsing virkjunarkosta í verndarflokki 2. áfanga rammaáætlunar eigi að eiga sér stað. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Tekið er fram að Landsvirkjun styðji heilshugar markmið áætlunarinnar og þar með talið friðlýsingu verðmætra landsvæða. Vísað er til umfjöllunar í þessum efnum en Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi á dögunum verklag Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, við friðlýsingar. Hefur ráðherra hafnað þeirri gagnrýni og sagt í öllu farið að lögum við hana.

„Með svo víðtækri friðlýsingu sem lögð er til er verið að koma í veg fyrir orkunýtingu á stórum svæðum um ókomna framtíð. Á viðkomandi svæðum geta verið aðrir virkjunarkostir sem ekki hafa verið skoðaðir en væru ásættanlegir m.t.t. áhrifa á umhverfi og samfélag,“ segir í fréttatilkynningunni og vísað í greinargerð með lagafrumvarpi um rammaáætlun:

„Í greinargerð með lagafrumvarpinu um rammaáætlun er það skýrt tekið fram að verndun heilla vatnasviða þar sem virkjunarkost í verndarflokki er að finna sé alls ekki sjálfgefin. Landsvirkjun hefur síðustu ár margítrekað bent á þessa annmarka í samskiptum við stjórnvöld og á opinberum vettvangi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert