Skattabreytingar innleiddar á tveimur árum í stað þriggja

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína á Alþingi í kvöld …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína á Alþingi í kvöld í upphafi 150. löggjafarþings sem sett var í gær. Loftslagsvá, skattabreytingar og mannréttindamál voru áberandi í máli Katrínar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Innleiðingu þriggja þrepa skattkerfis á að ljúka tveimur árum en ekki þremur. Þetta er meðal þess sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði áherslu á í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld. 

Katrín minntist á lífskjarasamningana sem undirritaðir voru í vor. Sagði hún stjórnvöld hafa komið að gerð kjarasamninganna með skýrari hætti en áður hefur tíðkast og að allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar miðuðu að auknum félagslegum stöðugleika. 

Með innleiðingu þriggja þrepa skattkerfis mun skattbyrði á tekjulægstu hópana lækka. „Þessi breyting mun auka jöfnuð og bæta kjör þeirra sem verst standa. Þegar samningum lauk í vor lögðu fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar áherslu á að þessum breytingum yrði flýtt og því leggur ríkisstjórnin nú til að þær verði innleiddar á tveimur árum en ekki þremur eins og gert var í fjármálaáætlun. Þetta skiptir máli til að jafna kjörin í landinu,“ sagði Katrín. 

Loftslagsváin stærsta áskorunin

Loftslagsvá, alþjóðasamvinna, matvælastefna, lífskjarasamningar, lenging fæðingarorlofs, nýtt þjóðhagsráð, fjórða iðnbyltingin, þriðji orkupakkinn og popúlismi voru einnig á meðal fjölmargra þátta sem Katrín kom inn á í stefnuræðu sinni. 

Í stefnuræðu sinni í fyrra lagði Katrín áherslu á umhverfismál og voru þau einnig fyrirferðarmikil í ræðunni í kvöld þar sem Katrín sagði að loftslagsváin væri að skapa neyðarástand nú þegar víða um heim. „Hún er okkar stærsta áskorun,“ sagði Katrín og bætti við að mannkynið bæri ábyrgð á ástandinu á sama tíma og mannkyninu stafaði ógn af því. Hún sagði mikilvægt að læra af fortíðinni en lykilatriðið væri samt sem áður núið og sagðist hún vera stolt af því að leiða ríkisstjórn sem leggur fram fyrstu fjármögnuðu aðgerðaáætlunina til að berjast gegn loftslagsvánni sem snýst um orkuskipti í samgöngum og stóraukna kolefnisbindingu.

Katrín fagnar þeirri auknu meðvitund sem gætir meðal almennings um mikilvægi þess að allir leggi lóð á vogarskálarnar. „En við getum ekki ætlast til að almenningur sjái alfarið um baráttuna. Stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, atvinnurekendur og samtök launafólks verða að draga vagninn. Samstillt átak er forsenda þess að við náum raunverulegum árangri,“ sagði Katrín. 

Þá lagði hún sömuleiðis áherslu á að loftslagsváin verði ekki leyst með gamaldags málflutningi kalda stríðsins heldur þurfi alþjóðlega samvinnu þar sem allir sitja við borðið. Því mun Ísland setja umhverfismálin í forgang í formennskuáætlun íslenskra stjórnvalda í norðurskautsráðinu. 

Jafnar kjörin að tryggja öllum þak yfir höfuðið

Katrín kom einnig inn á húsnæðisvandann sem hún segir hafa verið umlykjandi allt frá hruni. „Með stuðningi við uppbyggingu félagslegs húsnæðis á vegum verkalýðshreyfingarinnar, úrræðum til að styðja við fyrstu kaupendur, aðgerðum til að tryggja framboð íbúðarhúsnæðis til lengri tíma og aukinni yfirsýn stjórnvalda og stefnumótun í húsnæðismálum erum við þegar farin að sjá árangur. Og það jafnar kjörin hér á landinu okkar að tryggja öllum þak yfir höfuð og öruggt skjól,“ sagði Katrín. 

Nýtt þjóðhagsráð fundar í október

Þá sagði Katrín lækkun stýrivaxta um eitt prósentustig vera gríðarlegt hagsmunamál fyrir almenning. Sagði hún stjórnvöld myndu standa undir þeim væntingum sem til þeirra eru gerðar en þar með er verkinu ekki lokið. Fyrsti fundur nýs þjóðhagsráðs verður í október þar sem eiga sæti fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga, og Seðlabanka.

„Ég hef væntingar til þess að samtal stjórnvalda og vinnumarkaðar sé komið í skýran farveg sem mun hafa jákvæð áhrif til framtíðar á efnahagslegan og félagslegan stöðugleika,“ sagði Katrín. 

Afar og ömmur ætluðu ekki að verða zúmbakennari eða forritari

Í vetur munu stjórnvöld leggja fram tillögur að aðgerðum til að mæta fjórðu iðnbyltingunni og áhrifum hennar á íslenskan vinnumarkað. Katrín vísaði í nýlega skýrslu forsætisráðuneytisins þar sem kemur fram að þeim sem voru starfandi á íslenskum vinnumarkaði árið 2017 voru aðeins um 14% í störfum þar sem litlar líkur eru á sjálfvirknivæðingu. 

„Önnur störf munu taka breytingum eða jafnvel hverfa. En ný störf munu líka verða til. Og minnumst þess að fólk af kynslóð afa og ömmu, þá er ég að tala um sjálfa mig, ætlaði ekki að verða zúmbakennari eða forritari enda störfin ekki til þá,“ sagði Katrín. 

Áskorunin þegar kemur að fjórðu iðnbyltingunni er að mati Katrínar að auka verðmætasköpun í öllum atvinnugreinum en tryggja um leið að ávinningurinn af tæknibreytingunum dreifist með réttlátum hætti. 

Orkupakkinn sýndi fram á þörf stjórnarskrárbreytingar

Þriðji orkupakkinn kom einnig við sögu í ræðu Katrínar og sagði hún umræðuna um hann, sem hún telur hafa verið hatramma, sýna hve mikil þörf er á því að Alþingi standi við að gera breytingar á stjórnarskrá, ekki síst með ákvæði um þjóðareign á auðlindum og umhverfissjónarmið við auðlindanýtingu.

„Það á að vera forgangsmál að tryggja að öll þau gæði sem náttúran hefur gefið okkur séu í sameiginlegri eigu okkar allra – hvort sem það er vatnið, jarðvarminn, vindurinn, hafið eða hvað annað,“ sagði Katrín. Tillögur að slíkum stjórnarskrárákvæðum voru settar í opið samráð fyrr í sumar og væntir Katrín þess að vinnu við þau verði lokið síðar á þessu ári. 

„Við getum orðið betri“

Að lokum sagðist Katrín vera stolt að tilheyra íslensku samfélagi þar sem tekist er á um ýmis mál en staðið saman þegar á reynir. „Þar sem við hræðumst ekki áskoranir heldur tökumst á við þær. Ágreiningur er ekkert til að óttast. Hann er sameiginleg áskorun okkar allra sem eigum það sameiginlegt að vilja búa hér í þessu landi,“ sagði Katrín. 

Þá sagði hún Ísland vera best í heimi í þessu og hinu en að við getum orðið enn betri. „Og um það ættum við öll hér að geta verið sammála. Við erum ekki minni eða meiri Íslendingar þó að uppruni okkar sé ólíkur,“ sagði forsætisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert