Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, sagði í ræðu sinni á Alþingi í kvöld að bjóða þyrfti upp á nýjan veruleika. Ræddi hún þar um kerfisbreytingar, sem Píratar hefðu allt frá stofnun kallað eftir, og sannarlega væri enn þörf á.
„Við breytum litlu með því að berjast einfaldlega gegn ríkjandi veruleika. Við verðum að byggja nýtt líkan sem kemur í staðinn fyrir það úrelta. Bjóða upp á nýjan veruleika. Byggja upp frekar en rífa niður,“ sagði hún.
Halldóra nefndi að Píratar hefðu lagt mikla áherslu á að tryggja öllum skilyrðislausa grunnframfærslu. „Ímyndum okkur hvernig það væri að lifa við þá vissu að jafnvel þótt okkur mistækist, þá yrði hægt að borga reikningana, grunnframfærslan væri tryggð. Möguleikinn á að gera mistök og læra af þeim er nefnilega mun meira virði en við gerum okkur grein fyrir. Farvegurinn að sannri þekkingu er hlaðinn mistökum og stöðugri aðlögun að þeim, aftur og aftur og aftur.“
Þá sagði hún hagkerfi heimsins byggjast á þeirri glórulausu hugmynd að linnulaus hagvöxtur væri það eina sem samfélög þyrftu til að dafna. „Sannarlega er hagvöxtur hluti af jöfnunni, en hann hefur líka alið af sér ójöfnuð, stigmagnandi loftslagsvá, náttúruspjöll og skertan félagsauð. Þessi hagvaxtarþankagangur kyndir undir pólaríseringu og popúlisma og kemur í veg fyrir sameinaðar aðgerðir í loftslagsmálum. Hagvaxtarmódelið hefur alið af sér stöðnun raunverulegra framfara,“ sagði hún í þessu samhengi og bætti við: „Við erum einfaldlega að stela framtíðinni, selja hana í nútíðinni og köllum þetta verga landsframleiðslu.“
Í lokaorðum ræðu sinnar sagði Halldóra að sú hugmyndafræði sem forsætisráðherra hefði talað um í ræðu sinni, að grunnskylda okkar allra væri við samfélagið, væri ekki ný af nálinni. Sú hugmynd rímaði hins vegar óþægilega við hugmyndir valdhygginna stjórnmálamanna á fyrri hluta 20. aldar. Sagði hún að hanna þyrfti samfélag sem stuðlaði að síbatnandi lífi fyrir alla. Hvar grunnþörfum allra væri mætt án þess að ræna komandi kynslóðir framtíð sinni og að hver einstaklingur hefði tækifæri til að vaxa og dafna og njóta góðs af samfélagslegum framförum.
„Einu sinni þótti þetta róttæk framtíðarsýn, en vonandi ekki mikið lengur,“ sagði hún.