„Við búum í ábyrgðarlausu samfélagi“

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það þarf þor til þess að segja „rökstuddur grunur“,“ sagði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, í lokaorðum ræðu sinnar á Alþingi í kvöld og vísaði þar til þess þegar samflokksmaður hans, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, sagði að rökstuddur grunur væri um að Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hefði dregið sér almannafé. Málið dró dilk á eftir sér því Þórhildur Sunna var í kjölfarið talin af siðanefnd Alþingis hafa brotið gegn siðareglum alþingismanna. Þá sagði Björn Leví sjálfur, í samtali við mbl.is fyrir tíu dögum, að enn væri rökstuddur grunur um að Ásmundur hefði dregið sér fé.

Björn Leví vísaði með óljósum hætti til fleiri mála sem farið hafa hátt, sem dæmi sagði hann: „Við búum í ábyrgðarlausu samfélagi þar sem ráðherrar geta stungið skýrslum undir stól fyrir kosningar, skipað dómara eftir geðþótta og selt ríkiseignir til vina og vandamanna án þess að nokkur axli ábyrgð og standi reikningsskil af verkum sínum.“

Ný stjórnarskrá og styttri vinnuvika

Þá talaði Björn Leví fyrir nýrri stjórnarskrá, líkt og fleiri ræðumenn gerðu í kvöld, og sagði Pírata meðal annars bjóða upp á styttri vinnuviku og velsældarþjóðfélag. 

„Kæru landsmenn, það er auðvelt að stunda stjórnmál eins og venjulega. Það er auðvelt að horfa í hina áttina eða í gegnum fingur sér. Það er auðvelt að ala á ótta og vantrausti. Það þarf hins vegar kjark til þess að gera breytingar og standa uppi í hárinu á valdhöfum. Það þarf þrautseigju til þess að draga fram svör þegar enginn vill svara. Það þarf þor til þess að segja „rökstuddur grunur“. Það þarf hugrekki til þess að storka meðvirkni, ögra valdinu og segja fokk ofbeldi. Við Píratar þorum. Við þorum að berjast við sérhagsmunaöflin og bjóðum líka upp á framtíðarsýn um velsæld fyrir okkur öll. Betra gerist það ekki,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert