Neytendasamtökin hafa krafist lögbanns á innheimtufyrirtæki og forsvarsmann þess í tengslum við innheimtu smálána sem samtökin segja ólögmæt. Í tilkynningu á vef Neytendasamtakanna kemur fram að þau hafi orðið þess áskynja að innheimtufyrirtækið beiti ólögmætum aðferðum við innheimtu krafna þannig að hlutfallstala kostnaðar sé mun hærri en lög heimili.
Um er að ræða fyrirtækið Almenna innheimtu ehf. og forsvarsmann þess Gísla Kr. Björnsson.
Neytendasamtökin segja fyrirtækið halda kerfisbundið lögbundnum upplýsingum frá lántökum, auk þess sé innheimtukostnaður hærri en leyfilegt er. Á þeim grunni leggja samtökin fram kröfu um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda. Segja samtökin að Almenn innheimta lúti ekki eftirliti Fjármálaeftirlitsins og þá hafi Lögmannafélagið, eða úrskurðarnefnd þess, ekki talið sig búa yfir neinum úrræðum. Því sé ekkert annað í stöðunni en að grípa til þessara aðgerða.
Krafan er sett fram með aðstoð VR og segja samtökin að von sé á frekari aðgerðum gegn smálánafyrirtækjunum og þeim fyrirtækjum sem aðstoða þau við að viðhalda ólöglegri starfsemi gegn neytendum sem eiga erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér.