Landsnet hyggst flýta undirbúningi fyrir lagningu nýrrar háspennulínu úr Hvalfirði í Hrútafjörð eða nágrenni. Tilgangurinn er að bregðast við óskum þriggja fyrirtækja sem undirbúa vindorkugarða í Dölum og Gilsfirði en núverandi kerfi ræður ekki við að flytja orkuna frá þeim inn á landskerfið.
Landsnet hefur frá því í vor staðið í umfangsmiklu kynningar- og samráðsferli fyrir kerfisáætlun sem gilda á til ársins 2028. Nú hefur kerfisáætlunin verið send til Orkustofnunar. Helsta breytingin er að styrkingu byggðalínunnar með lagningu nýrrar línu úr Hvalfirði í Hrútafjörð verður flýtt.
Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets, segir að margir aðilar séu að hugsa sér til hreyfings með nýtingu vindorku. Það hafi komið nokkuð á óvart í samráðsferlinu að mestu áformin eru á afmörkuðu svæði á Vesturlandi og Vestfjörðum. Hann segir að meginflutningskerfið ráði ekki við þessa viðbót enda komi hún frá svæði sem ekki hafi verið skilgreint sem orkuframleiðslusvæði, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.