Óraunhæft fjárlagafrumvarp byggt á óskhyggju

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir fjárlagafrumvarp næsta árs byggja …
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir fjárlagafrumvarp næsta árs byggja á óskhyggju um að efnahagurinn verði betri á næsta ári en allar líkur standa til. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við sitjum uppi með óraunhæft fjárlagafrumvarp sem virðist vera byggt á óskhyggju um að efnahagurinn verði betri á næsta ári en allar líkur standa til,“ sagði Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í fyrstu umræðu um fjárlög 2020 á Alþingi í dag. 

Oddný sagði að engin krafa væri gerð til þeirra sem nutu uppsveiflunnar mest um að leggja meira af mörkum í niðursveiflunni. 

„Þeir efnamestu eru varðir. Engar breytingar eru boðaðar í tekjuskattskerfinu til að taka á ofurlaunum, engin hugmynd um stóreignaskatt, engin breyting sem gefur aukinn arð af auðlindum okkar en það eru boðaðar breytingar á fjármagnstekjuskatti. En ekki til hækkunar heldur til lækkunar,“ sagði Oddný. 

Þá gagnrýndi hún að í fjárlagafrumvarpinu væri ekki útlistað hvernig tekið yrði á versnandi stöðu og engin skref sýnd í frumvarpinu sem taka ætti til að undirbúa harkalegri niðursveiflu. 

Sagði Samfylkinguna sakna skattahækkana

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði að alltaf væri óvissa um framtíðina og það væru blikur á lofti í alþjóðaviðskiptum. Stjórnvöld þyrftu hins vegar að nota opinberar hagspár við áætlanagerð sína. Bjarni sagði ríkissjóð í góðri stöðu til að mæta samdráttarskeiði ef það yrði lengra en nú er spáð. Þá sagði hann Samfylkinguna sakna þess að sjá skattahækkanir „eins og venjulega“. 

Bjarni fullyrti að með fjárlögum ársins 2020 „sýnir ríkisstjórnin í verki áform sín að stuðla að stöðugleika, bættum lífskjörum, áframhaldandi uppbyggingu, þjónustu og fjárfestingu í innviðum landsins, þjóðinni allra til heilla“.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mælti fyrir fjárlagafrumvarpi sínu við …
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mælti fyrir fjárlagafrumvarpi sínu við upphaf þingfundar í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Þingfundur hófst klukkan 10.30 í morgun og er fyrsta umræða um fjárlög 2020 eina málið á dagskrá. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, greindi frá því upphafi fundar að samkomulag væri um að þingfundur geti staðið lengur en til 20 ef þörf krefur. Áhugasamir geta fylgst með umræðunni hér að neðan: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert