„Heimsendaspámenn taka því jafnan illa þegar bent er á að heimurinn sé ekki að versna alveg eins mikið og þeir halda fram,“ skrifar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins á Facebook. Náttúruverndarsamtök Íslands gagnrýndu orð hans frá þingfundi í gær og sögðu hann hafa vitnað í þekktan svindlara.
Sigmundur sagði alþjóðaveðurfræðistofnunina hafa varað við ofstæki í loftslagsmálum. Náttúruverndarsamtökin sögðu hann hins vegar hafa vitnað í bresk samtök sem afneiti vísindalegum niðurstöðum um loftslagsbreytingar.
„Því var haldið fram að ég hefði verið að vitna í einhvern félagsskap í Bretlandi sem væri skipaður einhvers konar rugludöllum. Þar af leiðandi væri þetta vitleysa (þið sjáið hvað þetta er traust röksemdafærsla),“ skrifar Sigmundur.
Hann segist ekki hafa vitnað í áðurnefndan félagsskap í Bretlandi, sem hann hafi aldrei heyrt um, heldur í Sameinuðu þjóðirnar og gögn þaðan.
„Meðal þeirra sem hafa útlistað þetta á skýran hátt er Björn Lomborg sem er mikils metinn víða um heim fyrir að tala fyrir betri aðgerðum til að fást við loftslagsvá og önnur stór úrlausnarefni mannkyns,“ skrifar Sigmundur og heldur áfram:
„Heimurinn er ekki að farast en úrlausnarefnin eru samt mörg og stór. Það á ekki síst við umhverfismálin. Við hljótum að vilja nálgast vandamálin með það að markmiði að finna bestu lausnirnar fremur en að nota þau sem efnivið sýndarstjórnmála.“