„Þetta gekk prýðilega og við komum hylkinu á sinn stað. Síðan er bara að fylgjast með því og hvert þetta berst. Það ætti að geta gefið okkur upplýsingar um mögulegar leiðir sem rusl í hafinu berst,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra í samtali við mbl.is.
Guðmundur sjósetti í dag flothylki til að sýna hvernig rusl í hafi ferðast til og frá norðurslóðum. Verkefnið tengist formennsku Íslands í norðurskautsráðinu og er ætlað að stuðla að aukinni þekkingu og meðvitund um rusl í hafi, ekki síst plasti. Fleiri hylki verða sjósett á næstu misserum annars staðar á norðurslóðum.
Flothylkinu var varpað frá varðskipinu Þór á vegum Landhelgisgæslunnar og siglt var frá Keflavíkurhöfn norðvestur af Garðskaga.
„Ég held að fræðslugildið af svona verkefni sé gríðarlega mikið. Við gerum okkur betur grein fyrir því að það sem við erum að henda og endar í náttúrunni hverfur ekki og höfin eru okkur einstaklega dýrmæt auðlind, bæði fyrir lífríkið og efnahaginn. Öll þessi áhrif, sérstaklega plastið, er eitthvað sem við þurfum að draga úr,“ bætir Guðmundur við.
Að verkefninu stendur PAME (Protection of the Arctic Marine Environment) sem er starfshópur innan norðurskautsráðsins, með aðsetur á Akureyri. Þau vinna nú að svæðisbundinni aðgerðaáætlun fyrir plast og annað rusl á hafsvæðum norðurslóða en málaflokkurinn er eitt af forgangsmálum í formennskutíð Íslands í norðurskautsráðinu.
Verkís hannaði hylkið sem búið er gps-sendi og því verður hægt að fylgjast með ferðalagi þess yfir langan tíma. Alþjóðlegur fundur PAME stendur nú yfir í Reykjavík og verða fleiri hylki sjósett á næstu misserum annars staðar á norðurslóðum. Hylkið er hannað til þess að endast fimm ár í sjónum. Sólarraðhlaða í tækinu knýr gps-tækið og gerir því kleift að senda upplýsingar um staðsetningu hylkisins í þann tíma.
„Plast í hafi er vaxandi vandamál og brýnt að auka þekkingu á því hvernig ruslið berst um heimshöfin. Flothylkin veita þar mikilvæga innsýn, auk þess sem þau auka meðvitund okkar um plast í hafi,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra einnig og bætir við:
„Að draga úr plastmengun er eitt af mínum forgangsmálum sem ráðherra og margvíslegum aðgerðum hefur þegar verið hrint í framkvæmd hér heima eða eru í farvatninu. Ísland hefur auk þess beitt sér alþjóðlega gegn plastmengun og sett málið á dagskrá hjá norðurskautsráðinu. Það er mjög mikilvægt.“