„Þetta verður maraþon hjá mér, ætli það taki ekki um tvo tíma. Þetta verður afslappað og fólk getur komið og farið, hlustað á brot, enginn þarf að staldra við í tvo tíma frekar en hann vill. Ég tek það að mér,“ segir Rósa Jóhannesdóttir kvæðakona og fiðluleikari sem ætlar að kveða Disneyrímur í heild sinni á kaffihúsinu Stofunni í Reykjavík nk. laugardag.
Það gerir hún í tilefni af 90 ára afmæli Kvæðamannafélagsins Iðunnar, en Rósa lætur það ekki duga því hún ætlar á afmælishátíðinni í Iðnó á sunnudeginum að kveða Óð til Iðunnar, sem maður hennar, Helgi Zimsen, hefur samið sérstaklega í tilefni afmælisins.
„Þar mun ég líka stjórna hópi söngelskra ungmenna sem ætlar að kveða Snúllurímur, glænýjar rímur eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson. Við ætlum að leika okkur að því að vaða yfir í hvert kvæðalagið á fætur öðru, spinna réttu kvæðalögin við ólíkt viðfangsefni textans. Þetta eru tólf krakkar á aldrinum sjö til tuttugu ára og þrjú þeirra eru mín eigin börn, Jóhannes Jökull sem er sjö ára og yngstur í hópnum og dætur mínar Gréta Petrína 10 ára og Iðunn 13 ára. Þau eru alvön að kveða en hin þekktu þetta ekkert og þeim finnst slaufurnar og skrautið í kvæðalögunum svolítið skrýtin og voru feimin að hella sér í þau óvenjulegheit, enda er það heilmikil þjálfun.“
Sjá viðtal við Rósu í heild í Morgunblaðinu í dag.