Sunnlenskt sorp sent á Norðvesturland

Sorp frá Suðurlandi er meðal annars flutt til urðunar í …
Sorp frá Suðurlandi er meðal annars flutt til urðunar í Fíflholt í Borgarfjörð og í Stekkjarvík skammt frá Blönduós.

Frá því SORPA hætti að taka við sunnlensku sorpi til urðunar í Álfsnesi um áramótin hefur það verið flutt til urðunar í Fíflholti í Borgarfirði og í Stekkjarvík skammt frá Blönduósi. Á næstu mánuðum skýrist hver næstu skref verða því samningur við þessa tvo urðunarstaði er til bráðabirgða, að sögn Jóns Valgeirssonar sveitarstjóra Hrunamannahrepps og formanns Sorpstöðvar Suðurlands (SOS). Sorpstöðin er í byggðasamlagi Árnes- og Rangárvallasýslna og fyrirtækja í þeirra eigu. Íbúar í sýslunum tveimur eru um 20 þúsund talsins. 

Íslenska gámafélagið og Gámaþjónustan hafa meðal annars séð um sorphirðu og eru móttökuaðilar fyrir SOS. Jón bendir á að eitt af því sem verið er að skoða í samvinnu við Íslenska gámafélagið sé útflutningur á sorpi til brennslu í evrópskum sorpbrennslustöðvum. „Þeir eru byrjaðir á þessu og hafa sent út tilraunasendingar,“ segir hann.

Hækkun sorphirðugjalds gæti verið í kortunum 

Um áramótin voru gerðar þær breytingar að öll sveitarfélögin flokka lífrænan úrgang. Íslendingar hafi náð þokkalegum tökum á að flokka lífrænan úrgang úr almennu sorpi, að sögn Jóns. Það skiptir mestu máli að vera laus við lífrænan úrgang og hann þarf að fara fyrst út úr hringrásinni. Hann er ekki tækur í útflutning og það má ekki urða hann heldur. Það er hann sem skapar myndun á ákveðnu gasi. Ef hann færi ekki t.d. í urðun á Álfsnesi þá bærist engin lykt þaðan,“ segir hann.  

„Kostnaður sveitarfélaganna við þessar breytingar hefur aukist,“ segir Jón. Í haust munu sveitarfélögin ákveða sorphirðugjald á íbúana.“ Jón telur ekki ólíklegt að það muni hækka en tekur fram að ákvörðun hafi ekki verið tekin. „Ef þessi málaflokkur á að standa undir sér eins og stefnt er að verður erfitt gera ekki breytingar,“ segir hann. Í þessu samhengi bendir hann á fyrirhugaðan urðunarskatt stjórnvalda sem gæti aukið enn kostnaðinn.

Kostnaður sveitarfélaga á Suðurlandi við sorphirðu hefur aukist frá áramótum.
Kostnaður sveitarfélaga á Suðurlandi við sorphirðu hefur aukist frá áramótum. mbl.is/Friðrik Tryggvason

„Flestar kenningar benda til þess að það sé ekki endilega óumhverfisvænt að senda sorp út til endurvinnslu eða endurnýtingar. Við höfum gert það í tugi ára með alla þessa flokka; járn, plast, pappa og ýmislegt annað. Auðvitað eigum við sem þjóð að nýta þessi hráefni heima eins og kostur er. Við erum smá í þessum bransa og það er ansi dýrt að koma upp ákveðnum lausnum í tilteknum úrgangsflokkum. Þó að okkur finnist magnið mikið getur það verið flókið rekstrarlega að láta það ganga. Auðvitað er draumur okkar að vinna úr þessum úrgangsefnum eins og kostur er hér heima,“ segir Jón spurður um útflutning á sorpi til annarra landa út frá umhverfisverndarsjónarmiðum. 

Förgun dýrahræja stór hluti úrgangs

Einn af þeim úrgangsflokkum sem eru þungir í vöfum hjá öllum sveitarfélögum á landsbyggðinni er förgun dýrahræja. Dýrahræ eru 1/10 af öllum úrgangi SOS. Dýrahræ má strangt til tekið ekki urða vegna hættu á mengun, heppilegast er að brenna þau. „Ríkið finnur ekki lausnir fyrir okkur. Við erum að vinna í því að finna lausn á þessu,“ segir Jón. Hugmyndir um brennsluofn eru á teikniborðinu. Slík bygging þarf að fara í umhverfismat og tefst því verkefnið að minnsta kosti um ár, að sögn Jóns. „Þetta skýrist  á næstunni,“ segir hann inntur eftir frekari upplýsingum um brennsluofn. 

Fólk eyðir óratíma í að draga að sér alls konar hluti

Halda þarf áfram að fá alla til að flokka og virða þær flokkunarreglur sem eru í gangi. „Við erum í stórkostlegum vandamálum á Íslandi með hvað fólk er latt að flokka og flokkar illa. Íbúar eru minnsta vandamálið því þeir hafa flestir aðgang að flokkunarmöguleikum. Þetta á sérstaklega við um fyrirtækin, frístundabyggðir, útihátíðir og ferðamenn,“ segir hann.

„Fólk verður að átta sig á því að það eyðir óratíma í að draga að sér alls konar hluti og borgar fyrir það stórfé og eyðir í það bæði tíma og peningum. Svo nenna menn alls ekki að eyða tíma né pening í að losa sig við hlutina sem menn að sjálfsögðu bera ábyrgð á. Þetta er stærsta verkefnið; hugarfar fólks,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert