Náttúrufræðistofnun hefur metið veiðiþol rjúpnastofnsins í haust og er ráðlögð veiði um 72 þúsund fuglar.
Forsendur matsins byggjast á þeirri stefnu stjórnvalda að rjúpnaveiðar skuli vera sjálfbærar. Ráðlögð veiði í fyrrahaust var um 67 þúsund fuglar og 57 þúsund haustið 2017.
Rjúpnastofninn er í niðursveiflu víðast hvar um land. Sums staðar, til dæmis á Norðausturlandi, er stofninn þokkalega sterkur miðað við síðustu 24 ár, en annars staðar stendur hann veikt, líkt og á Suðausturlandi. Viðkoma rjúpunnar á Norðausturlandi og Vesturlandi var góð, að því er fram kemur í umfjöllun um rjúpuna í Morgunblaðinu í dag.
Áætlaður rjúpnafjöldi haustið 2019 er vel yfir meðallagi miðað við síðustu áratugi. Reiknuð heildarstærð varpstofns rjúpu vorið 2019 var metin 228 þúsund fuglar. Framreiknuð stærð veiðistofns 2019 er 820 þúsund fuglar miðað við að hlutfall unga á veiðitíma sé 77%.