Reynt að svíkja út fé í nafni Alzheimersamtakanna

„Við vildum vara fólk við þessu. Þetta skemmir kannski svolítið fyrir okkur,“ segir Vilborg Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna, í samtali við mbl.is en samtökin hafa orðið fyrir barðinu á óprúttnum aðila sem hefur hringt í fólk og sagst vera að safna fé fyrir þau. Hefur verið beðið um kennitölu svo hægt sé að stofna kröfu í heimabanka.

Vilborg Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna.
Vilborg Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna. Ljósmynd/Alzheimersamtökin

Vilborg segir að þarna sé væntanlega verið að nota sér það að Alzheimersamtökin eru að fara í fjáröflun. Hún hafi sagt frá fjáröfluninni í útvarpsviðtali í gær en söfnunin fari hins vegar ekki fram í gegnum síma. Fái fólk slík símtöl séu þau því ekki frá samtökunum. Fjáröflun Alzheimersamtakanna snúist um sölu á hálsmenum og lyklakippum.

„Þetta er svo sorglegt þegar verið er að misnota sér aðstæður með þessum hætti,“ segir Vilborg. Ekki síst þegar um sé að ræða málstað eins og þennan. „Við megum auðvitað ekkert við þessu og þetta getur mögulega komið einhverju óorði á okkur.

„Við fengum ábendingu frá manni sem hafði fengið svona símtal. Hann gat gefið okkur upp símanúmerið sem hringt var úr,“ segir Vilborg en málið hefur verið tilkynnt til lögreglunnar. Hvað lögreglan geri í því viti hún ekki en málið sé allavega komið þangað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert