Á gjörgæslu í þrjá daga

Aníta Margrét fékk slæma meðgöngueitrun og þurfti sonur hennar, Arnar …
Aníta Margrét fékk slæma meðgöngueitrun og þurfti sonur hennar, Arnar Þór Eggertsson, að fara strax í öndunarvél. Hann braggaðist fljótt og er í dag sprækur drengur. mbl.is/Ásdís

Aníta Margrét Aradóttir, 37 ára móðir, fékk alvarlega meðgöngueitrun í lok árs 2018.

Meðgangan gekk mjög vel og það var ekkert að. En á 36. viku kom í ljós í mæðraskoðun að ég var komin með bullandi meðgöngueitrun,“ segir Aníta og man vel eftir þessum degi.

„Blóðþrýstingurinn var hár og mikið prótín í þvagi og mikill bjúgur. Ég fann ekkert fyrir því að ég væri veik. Ég var send beint á spítala í rannsóknir og var þar yfir nótt. Morguninn eftir kom fæðingarlæknirinn inn til mín og sagði þau hafa fengið úr blóðprufunum sem sýndu að nýrun og lifrin væru hætt að starfa eðlilega. Hann sagðist þurfa að setja mig af stað strax þennan dag. Ég var engan veginn tilbúin í fæðinguna og jólin á næsta leiti. Svo var þetta líka fyrsta barn þannig að ég var stressuð, en ég hafði meiri áhyggjur af heilsu barnsins heldur en minni,“ segir Aníta og segir ljósmæður hafa sagt hana það langt gengna að barnið væri tilbúið að fæðast.

Aníta segist vilja fá betri eftirfylgni en henni brá að …
Aníta segist vilja fá betri eftirfylgni en henni brá að heyra að hún væri í aukinni hættu á að þróa með sér hjarta- og æðasjúkdóma eftir slæma meðgöngueitrun. mbl.is/Ásdís

„En hann fæddist með vanþroskuð lungu og þurfti að fara í öndunarvél. Það var áfall líka. Hann fór á vökudeild og ég eyddi jólunum á spítala, en sjálf var ég á gjörgæslu í þrjá daga,“ segir Aníta og segist í raun ekki hafa gert sér grein fyrir hversu veik hún var.

Betri eftirfylgni

Aníta segir sér hafa brugðið þegar hún heyrði af nýjum rannsóknum þar sem kom fram að konur sem hefðu fengið meðgöngueitrun lifðu skemur en aðrar konur. Hún segir mjög gott að stofnaður hafi verið facebookhópur og segir það vera góðan vettvang til að skiptast á skoðunum og fá upplýsingar.

„Það var alltaf talað um að eftir fæðinguna væri allt búið og það væri nóg að fara einu sinni á ári í blóðþrýstingsmælingu. Það er ekkert nóg,“ segir hún og segist vilja fá betri eftirfylgni.

„Það er ekki gaman að heyra að maður gæti orðið hjartasjúklingur í framtíðinni en ég fór beint til heimilislæknisins og ræddi þetta við hann.“

Fékk fjórum sinnum meðgöngueitrun

Dóra Magnúsdóttir telur að bæta megi fræðslu um sjúkdóminn og stofnaði því facebookhóp.

Dóra stofnaði Facebook-hópinn „meðgöngueitrun-umræður“ ásamt vinkonu sinni Elínu Eiríksdóttur, en …
Dóra stofnaði Facebook-hópinn „meðgöngueitrun-umræður“ ásamt vinkonu sinni Elínu Eiríksdóttur, en þar geta konur deilt sögum sínum og upplýsingum. mbl.is/Ásdís

Ég var í raun með skilgreinda meðgöngueitrun í öllum mínum fjórum meðgöngum en í fyrstu meðgöngunni var ég veikust. Gallinn við meðgöngueitrun er sá að stundum yfirsést læknum hún því konum líður oft ekkert illa. Þegar ég var ólétt að mínu fyrsta barni var ég 26 ára og var hreystin uppmáluð. Ég var ekki með sterku einkennin; háan blóðþrýsting, prótín í þvagi og bjúg samtímis og því fór þetta framhjá læknum,“ segir Dóra sem lenti svo í hátt í tveggja sólarhringa fæðingu sem endaði með krömpum, sem eru alvarlegustu einkenni sjúkdómsins.

Hún segir að sér hafi brugðið mikið þegar sú frétt fór í loftið nýlega að sjúkdómurinn gæti haft áhrif á lífshlaupið og jafnvel stytt lífið.

„Mér brá. Og það sama gildir um vinkonu mína Elínu Eiríksdóttur sem fékk líka mjög alvarlega meðgöngueitrun. Við töluðum saman og okkar viðbrögð voru að stofna þennan hóp. Það er mjög áhugavert að sjá hvað mörgum konum brá mikið og hvað margar konur komu í hópinn og sögðu sínar sögur,“ segir Dóra og segist sjálf ekki hafa heyrt af aukinni hættu á hjartasjúkdómum fyrr en nú.

„Það þarf fyrst og fremst að hlusta betur á konur og leggja meiri áherslu á rannsóknir og eftirfylgni. Auðvitað á fullorðið fólk að bera ábyrgð á sjálfu sér en það þarf að fá fræðsluna. Því þessi alvarlegi sjúkdómur hefur áhrif á konur í miklu meira mæli en bara á meðgöngunni sjálfri.“

Fékk krampa og missti meðvitund

Brynhildur J. Bjarnarson gleymir aldrei reynslu sinni af meðgöngueitrun þó að liðin séu rúm sjötíu ár. Hún lá veik í marga mánuði á spítala þar til hún fæddi andvana dreng.

Brynhildur segir að þegar fréttir bárust í síðasta mánuði af nýjum rannsóknum varðandi meðgöngueitrun hafi hún lagt við hlustir, enda lenti hún sjálf í erfiðri lífsreynslu árið 1949.

„Ég hafði aldrei heyrt um að meðgöngueitrun gæti haft áhrif á mann löngu síðar og jafnvel stytt líf kvenna. Það var ekkert talað um neitt á þessum tíma. Bæði var minna vitað og svo var lítið rætt við sjúklinga um þeirra veikindi,“ segir Brynhildur og segist ánægð með að nú sé umræðan að opnast.

„Ég var nú ekki vel hress fyrir þegar ég fékk meðgöngueitrun. Ég fann að ég var ekki alveg eins og ég átti að mér að vera þannig að ég fór til heimilislæknisins en þá var ég rétt að gera mér grein fyrir því að ég væri ófrísk. Hann sagði strax við mig: „Þú ert með meðgöngueitrun og átt að leggjast strax inn.“ Ég fór upp á spítala og lét vita af þessu en þá var verið að opna nýja fæðingardeild og nýr læknir að koma. Mér var sagt að koma seinna og ég kom aftur og aftur en var aldrei lögð inn. Ég kom þarna vikulega en mér leið orðið ansi illa,“ segir Brynhildur sem var svo heima hjá sér þegar hún fékk krampa og missti meðvitund.  

Brynhildur var greind með meðgöngueitrun á fyrstu vikum meðgöngunnar árið …
Brynhildur var greind með meðgöngueitrun á fyrstu vikum meðgöngunnar árið 1949 en var ekki lögð inn fyrr en hún fékk krampa og missti meðvitund. Barnið fæddist mánuðum síðar andvana. mbl.is/Ásdís

Mamma réðst á lækninn

„Mamma kom að mér þar sem ég lá rænulaus á gólfinu og ég var með alveg rosalega krampa. Það var hringt á sjúkrabíl en ég vissi ekkert af þessu þar sem ég var meðvitundarlaus. Ég man smá úr sjúkrabílnum en datt svo út aftur,“ segir Brynhildur og segir móður sína hafa verið æfa. „Hún réðst á lækninn og sagði að þetta væri allt honum að kenna að hafa ekki tekið mig inn strax þegar það hefði verið ráðlagt, þarna löngu áður,“ segir hún.

„Þarna er ég komin fjóra, fimm mánuði á leið líklegast,“ segir Brynhildur sem var síðar flutt á aðra deild þar sem hún lá næstu mánuði. „Ég man ég spurði lækninn af hverju ég væri ekki látin fæða en hann sagði að það þyrfti að bíða eftir að barnið dæi. Og þarna var ég látin bíða og bíða. Svo komu þeir til mín eitt kvöldið og sögðu að barnið væri dáið,“ segir Brynhildur og segir drenginn hafa fæðst andvana daginn eftir, hinn 21. apríl árið 1949, en hann var þá tæpar tíu merkur.

Greinin í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka