Skaflinn í Gunnlaugsskarði á Esjunni er horfinn. Er það í fyrsta sinn síðan 2012 sem skaflinn hverfur að sögn Páls Bergþórssonar, veðurfræðings og fyrrverandi veðurstofustjóra, sem hefur árum saman fylgst grannt með skaflinum.
„Ég tók eftir því núna í gær að ég gat ekki séð hann. Ég lýsti eftir því á facebookinni og enginn hafði séð hann þó að einhverja grunaði að einhverjar leifar sæjust,“ segir Páll.
„Skaflinn hefur ekki horfið síðan 2012. Þar áður hvarf hann ekki 2011 en hann hvarf öll árin 2001 til 2010.“
Skaflinn hvarf á síðustu dögum. Spurður hvort það sé ekki nokkuð seint að skaflinn hverfi um miðjan september segir Páll ekki svo vera þar sem september sé strangt til tekið sumarmánuður.
„Skaflinn hverfur ekki nema á hlýindatímum. Það er þó ýmislegt sem veldur eins og snjókoman, hún er mismikil og einnig skiptir máli hvernig snjókoman er mynduð,“ segir Páll. Þegar snjóar og snjórinn blotnar og frýs aftur þá er líklegra að snjórinn sitji lengur í sköflum.
Páll hefur löngum sagt skaflinn góðan mælikvarða á lofthita. Þegar lofthiti er svipaður eða meiri en á hlýindaskeiðinu 1931-1960 hverfur skaflinn í Gunnlaugsskarði. Þegar hitinn er lægri nær hann aftur á móti ekki að bræða skaflinn. Eftir því sem sagnir herma hvarf skaflinn fyrst árið 1929 svo vitað sé.
Í samtali við Morgunblaðið í byrjun ágúst spáði Páll því að skaflinn myndi hverfa. Þá var afar lítið eftir af skaflinum.