Strætó er ráðþrota

mbl.is

Hvorki gengur né rekur hjá Strætó að halda áætlun strætisvagna að Háskólanum í Reykjavík. Strætó gerði breytingar á leiðakerfi sínu fyrir haustið til þess að bæta úr, þær hafa litlu skilað fyrir farþega á leið í HR.

Sem kunnugt er teppist umferð verulega í nágrenni við skólann á álagstímum. Morgunblaðinu barst ábending um nemanda skólans sem rak upp stór augu þegar mælt var með því á vef Strætó að taka leið 18 ofan úr Grafarholti niður að Veðurstofu til þess að ganga síðan í hátt í 25 mínútur, yfir Öskjuhlíð og að HR. Hugnaðist honum þetta illa, sérstaklega með frost, slabb og skammdegi í huga, og ákvað að fjárfesta í bíl til þess að sækja skólann.

Áætlanir standast ekki

Strætó gerir ráð fyrir annarri leið, þ.e. úr Grafarholti með leið 18 í Ártún þar sem skipt sé yfir í vagn 6. Með honum liggi leið að BSÍ þaðan sem leið 8 fer í HR, en hún er ný af nálinni hjá Strætó. Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir að áætlanir leiðar 8 standist þó nær aldrei á álagstímum sökum umferðarþunga í Öskjuhlíð.

Guðmundur Heiðar segir að leið 8 hafi verið bætt við leiðakerfið í byrjun hausts í tengslum við erfiðleikana í Öskjuhlíð. Fimman var sú leið sem fór að HR, en leið hennar liggur einnig upp í Árbæ og Norðlingaholt. Guðmundur segir það hafa komið fyrir að þrjár fimmur hafi verið fastar í einu í umferð við HR. „Leiðin upp í Árbæ og Norðlingaholt fór bara í klessu. Eins og við bjuggumst við, þá er leið 8 reglulega föst og engar áætlanir standast á álagstímum liggur við, þar til eitthvað meira kemur til. Hvað það verður er ég bara ekki viss um,“ segir hann í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Strætó-appið mælti með 20 mínútna göngutúr í Öskjuhlíð.
Strætó-appið mælti með 20 mínútna göngutúr í Öskjuhlíð. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert