Um 30 manns tóku þátt í Ófeigsfjarðarleit þar sem Ófeigsfjarðarheiði og nálæg svæði voru smöluð í gær og í dag. Smölun gekk vel þrátt fyrir dimmt veður, en í dag gerði svo svakalegt slagviðri þannig að elstu menn muna vart annað eins. Þurfti að smala fénu úr réttinni yfir í fjárhúsin á bænum Melum þar sem smalamenn voru orðnir hraktir í veðrinu, féð einnig.
Björn Torfason, leitarstjóri í Ófeigsfjarðarleit, segir í samtali við mbl.is að veðrið hafi hreinlega farið úr böndunum. „Það gerði brjálað veður um kaffileytið,“ segir hann, en þá voru réttirnar einmitt að hefjast. Ákveðið var að fara með féð í fjárhúsin á Melum þar sem skjól var að fá.
Hann segir að menn séu ýmsu vanir á Ströndum, en að það séu margir áratugir síðan síðast var ekki hægt að rétta í Melarétt sjálfri.
Þrír bæir eiga fé í Melarétt og er heildarfjöldi fjár á bilinu 600-700 að sögn Björns. Hann telur að ágætlega hafi tekist að smala og að stór hluti hafi skilað sér, enda hafi ekki verið þoka í smöluninni, þrátt fyrir dimmviðri.
Björn segir að þrátt fyrir sérstakar aðstæður hafi náðst góð réttarstemning í fjárhúsinu. Fljótlega eftir að búið var að rétta hafi farið að heyrast söngur eins og vera ber og þá hafi fólkið fengið sér að borða saman.
Hann segir að bændur hafi eftir réttirnar farið að rifja upp önnur ár þar sem veðrið hafi verið slæmt. Segir hann að horfa þurfi aftur til 1995 til að finna eitthvað sambærilegt varðandi úrkomuna og líklegast eitthvað lengra aftur, enda hafi ekki verið þurr þráður á nokkrum manni í dag.