1.300 fermetra fimleikahús opnað á Nesinu

Mikið líf og fjör var í nýja fimleikahúsinu þegar það …
Mikið líf og fjör var í nýja fimleikahúsinu þegar það var opnað í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Nýtt fimleikahús og endurbætt íþróttamiðstöð voru formlega opnuð í gær á Seltjarnarnesi. Endurbæturnar og nýja fimleikahúsið eru samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Seltjarnarnesbæjar en fimleikahúsið er 1.300 fermetrar. 

Tímamótunum var fagnað í gær með hátíðardagskrá og fimleikasýningu þar sem fjöldi barna úr fimleikadeild Gróttu sýndi listir sínar. 

„Í árslok 2016 undirrituðu þau Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri samstarfssamning á milli Seltjarnanesbæjar og Reykjavíkurborgar um að standa sameiginlega að stækkun íþróttaaðstöðu Gróttu til að bæta aðstöðu til fimleikaiðkunar,“ segir í fréttatilkynningu frá Seltjarnarnesbæ.

„Upp­haf viðræðna sveit­ar­fé­lag­anna nær til samþykkt­ar á fundi sam­bands sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu árið 2010, en þá stefndu sveit­ar­stjór­arn­ir á aukið sam­starf í íþrótta­mál­um á höfuðborg­ar­svæðinu.“

Guðjón Rúnarsson, formaður fimleikadeildar Gróttu, Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, og …
Guðjón Rúnarsson, formaður fimleikadeildar Gróttu, Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, voru viðstödd opnunarathöfnina. mbl.is/Árni Sæberg

Helmingur iðkenda í fimleikum

Samstarfssamningurinn felur í sér að sveitarfélögin tvö standi sameiginlega að rekstri fimleikadeildar Gróttu. Mun Reykjavíkurborg greiða leigu á fimleikaaðstöðunni fyrir iðkendur sem eru búsettir í Reykjavík. Leigusamningurinn var gerður til 20 ára með ákvæði um framlengingu á fimm ára fresti. 

Fyrsta skóflustungan að stærri og endurbættri íþróttamiðstöð Seltjarnarness var tekin í lok mars 2018. 

Fimleikafólk á öllum aldri sýndi listir sínar.
Fimleikafólk á öllum aldri sýndi listir sínar. mbl.is/Árni Sæberg

Iðkendur hafa aldrei verið fleiri hjá Íþróttafélaginu Gróttu sem hefur aðsetur á Seltjarnarnesi. Þeir eru nú um 1200, þar af er fjöldi iðkenda í fimleikadeildinni 575 eða tæpur helmingur allra iðkenda. 65% iðkenda í fimleikadeildinni eru búsettir í Reykjavík.

Umfangsmikil framkvæmd og mikil ánægja 

„Framkvæmdin á íþróttamannvirkinu var afar umfangsmikil því auk nýrrar viðbyggingar fyrir stórbætta aðstöðu fimleikadeildarinnar sem hefur nú fengið 1.300 fermetra undir starfsemi sína ákvað Seltjarnarnesbær að ráðast samhliða í endurbætur á íþróttamiðstöðinni sjálfri. Stóri íþróttasalur hússins var færður til vesturs, öll búningsaðstaða bætt til muna og 170 fermetra styrktarsalur var útbúinn fyrir félagsmenn,“ segir í tilkynningunni.

„Gerð var breyting á aðkomu í íþróttamiðstöðina, anddyrið stækkað sem og afgreiðslan og aðstaða starfsmanna. Það var Munck ehf. á Íslandi sem annaðist framkvæmdirnar á húsnæðinu en Þjónustumiðstöð Seltjarnarnesbæjar annaðist breytingar á lóðinni og aðkomu að íþróttamiðstöðinni.  Eftirlit með verkinu sá Strendingur ehf. um.“

Fjöldi fólks mætti á viðburðinn.
Fjöldi fólks mætti á viðburðinn. mbl.is/Árni Sæberg

„Mikil ánægja ríkir með endurbætur íþróttamiðstöðvarinnar og glænýja fimleikaaðstöðu sem er öll hin fullkomnasta sem og vel heppnað samstarfsverkefni Seltjarnarnesbæjar og Reykjavíkurborgar,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka