„Fyrir tveimur árum var ég búin að líta mér svolítið mikið nær og átta mig á því að það er annar hver maður að skilja. Þá fer ég að velta þessu umhverfi svolítið fyrir mér,“ segir Kolbrún Pálína Helgadóttir, annar umsjónarmanna nýrrar sjö þátta raðar sem nefnist Ást og kemur út á Sjónvarpi Símans Premium hinn 19. september næstkomandi.
Hún vann að þáttunum ásamt Kristborgu Bóel Steindórsdóttur. „Ég kastaði svo þessari hugmynd svolítið út í kosmósið og þeim hjá Símanum fannst þetta frábært umfjöllunarefni því það hafði enginn þorað að fara út í þetta.“ Kolbrún fór að vinna að verkefninu í samstarfi við Sagafilm og komst þá að því að Kristborg hafði komið með sambærilega hugmynd til þeirra. „Við ákváðum að sameina krafta okkar,“ segir Kolbrún en í kjölfarið hófst margra mánaða hugmyndavinna.
Í þáttaröðinni er rætt við sérfræðinga í ástarmálum. „Við erum með viðtöl við margt af fagfólki landsins í þessum fræðum; hjónabandsráðgjafa, fjölskylduráðgjafa, kynlífsráðgjafa, sálfræðinga og geðlækna. Þeir útskýra hvað gerist þegar fólk verður ástfangið, lendir í ástarsorg og skilur, svo við stiklum á öllum þessum helstu viðfangsefnum,“ segir Kolbrún.
Þáttaröðin kannar einnig sögu sambanda og hvað sé að breytast í þeim og samskiptum kynjanna. „Manni líður svolítið eins og maður sé að koma frá sér mastersritgerð og við vonum að þetta hafi einhver áhrif á samfélagið. Bæði að fólk hugsi sig betur um áður en það gerir eitthvað sem það sér eftir og beri meiri virðingu fyrir samböndum,“ segir Kolbrún. „Við vonumst til að fá fólk til að staldra aðeins við og velta fyrir sér hlutunum, til dæmis af hverju það er í sambandi,“ bætir hún við.
„Við skoðum einnig símana, netið, öll lætin á bak við það og kröfurnar og veltum því fyrir okkur hvort við séum að tapa fyrir okkur sjálfum í öllum þessum látum.“
Kolbrún segir einstaklinginn sjálfan vera rauða þráðinn í gegnum alla þáttaröðina. „Við erum svo gjörn á að kasta ábyrgðinni á makann okkar; hann á gera þig glaðan, koma þér á óvart, vera rómantískur og svo framvegis. En þegar við tökum viðtöl við allt þetta fólk varð þráðurinn sá að þú þarft sjálfur að vera í toppstandi til að makinn þinn viti hvað kemur þér á óvart eða gerir þig glaðan,“ segir hún og nefnir að skortur á samskiptum sé oftast ástæða þess að eitthvað fari úrskeiðis í samböndum.
Kolbrún segir alla geta tengt við efni þáttarins. „Það hafa allir gert mistök, allir verið klaufalegir og allir orðið afbrýðisamir. Það hafa allir misst „kúlið“,“ segir hún og bætir við: „Þegar fólk er á þessum stað að skilja og hefja nýtt líf eru flestir sammála um að þar kann enginn almennilega að takast á við hlutina. Við förum yfir það hverjar eru reglurnar. Máttu hafa myndir af fyrrverandi á Facebook-veggnum en ekki inni í stofu hjá þér? Hvar eru línurnar í þessu nýja umhverfi sem við lifum við? Við veltum við öllum þessum steinum.“
Nánar er rætt við Kolbrúnu um þættina Ást í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.