Fyrsti vetrarsnjórinn fallinn á Esjuna

Eins og sést á myndinni, sem var tekin í morgun, …
Eins og sést á myndinni, sem var tekin í morgun, er Esjan komin í létta vetrarkápu. mbl.is/Árni Sæberg

Skaflinn í Gunnlaugsskarði á Esjunni var ekki lengi fjarverandi því fyrsti vetrarsnjórinn féll á Esjuna í nótt eins og sjá má á meðfylgjandi mynd sem tekin var í morgun. mbl.is greindi frá því í gær að skaflinn í Gunnlaugsskarði hefði horfið í vikunni. 

„Skaflinn í Gunnlaugsskarði náði rétt að hverfa áður en hann kom aftur,“ segir Þorsteinn V. Jónsson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.

Hann jánkar því að þetta sé til marks um að veturinn sé kominn. Þó sé september strangt til tekið sumarmánuður. „Flestir kalla þetta nú samt haust,“ segir Þorsteinn.

Snjórinn er ekki óvenjusnemma á ferðinni, að sögn Þorsteins. Það snjóaði víðar á landinu í nótt en á Esjunni. Þau snjókorn eru með þeim fyrstu sem féllu á landinu þennan veturinn, ef vetur má kalla. 

„Það var auðvitað óvenjugott sumar hérna suðvestanlands og haustið er búið að vera þokkalega hlýtt framan af. Það var þó svolítið svalt í nótt og snjóaði sums staðar á heiðum.“

Fennir fyrir vestan

Hlýna á aftur í vikunni en Þorsteinn segir að aðallega sé búið að fenna fyrir norðan og vestan. „Á Vestfjörðum virðist vera að snjóa núna en það er ekki mikinn snjó að sjá á Norðausturlandi. Það gránaði aðeins í nótt en núna er að hlýna aftur. Maður sá frosttölur hérna í morgun víða á Suðurlandi,“ segir Þorsteinn.

„Það var svolítið kalt í uppsveitunum, á Kálfhóli, í Árnesi og á Hjarðarlandi. Þar var fjögurra til fimm stiga frost. Fyrir norðan og víða á landinu var vægt frost í morgun. Núna er orðið frostlaust víðast hvar.“

Aðspurður segir Þorsteinn að höfuðborgarbúar ættu ekki að vænta mjallarinnar alveg strax. „Alla vega ekki í bili.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert