Skipstjórinn á bak við búðarborðið

Patreksfirðingar borða mikið af pítsu. Jóhann Magnússon selur oft pítsur …
Patreksfirðingar borða mikið af pítsu. Jóhann Magnússon selur oft pítsur eða deig í annað hvert hús á staðnum. mbl.is/Helgi Bjarnason

„Mér líkar þetta ágætlega. Vinnudagarnir eru langir, eins og á sjónum, og verkefnið tiltölulega afmarkað eins og þar. Ég er skipstjóri hér, eins og á sjónum,“ segir Jóhann Magnússon, skipstjóri og kaupmaður í versluninni Albínu á Patreksfirði.

Í Albínu er alhliða þjónusta við bragðlauka íbúanna. Þar er bakarí, ísbúð, sjoppa, grill í hádeginu og á kvöldin og þar eru bakaðar pítsur og steiktir hamborgarar. Þá er í versluninni úrval matvara svo fólk geti bjargað sér, eins og kaupmaðurinn tekur til orða. „Fjölbreytnin er okkar leið til að reka þessa þjónustu í fámenninu,“ segir hann.

Tvöfaldast á sumrin

„Þetta er endalaust hark. Það eru svo miklar sveiflur á milli ferðamannatímans og vetrarins. Veltan minnkar um meira en helming á veturna þegar við erum bara 730 íbúar eftir á staðnum. Það eru ekki aðeins ferðamennirnir sem bætast við á sumrin því íbúarnir gera betur við sig á þeim tíma,“ segir Jóhann kaupmaður.

Íbúum á Patreksfirði hefur fjölgað vegna aukinna umsvifa fiskeldisins. Það eykur viðskiptin og fyrirtækin sjálf eru einnig viðskiptavinir hjá Albínu. „Ég efast um að það væri rekstrargrundvöllur fyrir þessari verslun ef fiskeldið hefði ekki komið til,“ segir Jóhann.

„Allt annað líf“

Hann telur einnig að samfélagið á Patreksfirði sé heilbrigðara en áður var. Nýja fólkið sé fjölskyldufólk, ef ekki íslenskt þá pólskt fjölskyldufólk. Það skapi öðruvísi stemningu í þorpinu en þegar atvinnulífið grundvallaðist á einhleypingum sem komu á vertíð og bjuggu í verbúðum. Nú sé fasteignaverð á uppleið og fólk sjái tilgang í því að halda við húsum sínum. „Þetta er allt annað líf,“ segir Jóhann.

Þau hjónin, Jóhann og Ingunn Jónsdóttir, keyptu verslunina fyrir tæpum tveimur árum. Hann hafði starfað sem skipstjóri í 22 ár og unnið hjá fiskeldisfyrirtækjum um tíma, eftir að þau fluttu aftur heim. Ræturnar eru á Patreksfirði.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert