Þverrandi bænheyrn við hnerra

Fyrr á öldum var uppi ótti um skæða pest ef …
Fyrr á öldum var uppi ótti um skæða pest ef einhver hnerraði. Var fólki þá gjafnan óskað Guðs hjálpar. Ljósmynd/Colourbox

Margir kannast eflaust við það að hafa hnerrað af krafti og næsti maður þá sagt „Guð hjálpi þér!“ Á tímum mikillar umræðu um trúmál og þeirrar staðreyndar að hér á landi hefur fækkað í þjóðkirkjunni á undanförnum árum er eðlilegt að spyrja hvort upphrópun á borð við þessa sé á undanhaldi.

Miðað við þau samtöl sem Morgunblaðið átti virðist þetta raunin og það fer líka eftir trúfélögum hvaða orð eru notuð. Eru þau af ýmsu tagi.

Guðrún Kvaran málfræðiprófessor hefur svarað fjölmörgum spurningum á Vísindavef Háskóla Íslands, eða hátt í 1.200. Fyrir nokkrum árum fékk hún einmitt spurningu um af hverju fólk segði „Guð hjálpi þér“.

Í svari hennar segir að fyrr á tímum, þegar fólk var almennt bænræknara en nú gerist, hafi það leitað til Guðs um hjálp og styrk við erfiðleikum, sjúkdómum og öllu því sem hrjáði það.

„Það bað Guð um hjálp til að lifa sönnu kristnu lífi og breyta rétt gagnvart öðrum. Vissulega gera margir þetta enn en upphrópunin „Guð hjálpi þér“ heyrist sjaldnar en fyrir fáeinum áratugum. Hún var þó afar algeng þegar fólk var að býsnast yfir einhverju eða vildi sýna hneykslun sína. Nú á dögum lætur yngra fólk sér nægja að segja: „Jesus“, með enskum framburði í sama skyni,“ segir í svari Guðrúnar.

Frá tímum svarta dauða

Hún segir það hafa fylgt frásögnum af svarta dauða að hnerri hafi verið merki þess að fólk væri sýkt.

„Pestin var mjög skæð og því hrukku menn óneitanlega við ef einhver hnerraði. Af einhverjum ástæðum hnerrar fólk oft þrisvar í röð og var þá sagt við fyrsta hnerrann: „Guð hjálpi þér“, við annan hnerrann „styrki þig“ og við þriðja hnerrann „og styðji“. Annað og meira var oft ekki hægt að gera. Þessi siður hefur haldist hjá mörgum fram á þennan dag,“ segir loks í svari Guðrúnar á Vísindavefnum.

Í samtali við Morgunblaðið segir Guðrún að í raun sé litlu við þetta svar að bæta, þó að það hafi verið skrifað fyrir rúmum áratug. Þessi upphrópun, „Guð hjálpi þér“, sé líklega frekar á undanhaldi en hitt. Hætt sé við að þetta hverfi úr málinu með tíð og tíma, nema þá að einhver vakning eigi sér stað um að endurvekja þennan sið.

„Hér áður fyrr var þetta meira hugsað til að koma í veg fyrir að fólk fengi svæsnar pestir líkt og svarta dauða. Ég er alin upp við það að amma mín sagði alltaf „Guð hjálpi þér, styrki og styðji“ við hvern hnerra. Þetta er klárlega á undanhaldi. Það þykir ekki fínt að biðja Guð að hjálpa sér nú á dögum, nema þá eldra fólk – eins og ég,“ bætir Guðrún við.

Hún telur að í seinni tíð hafi fólk sagt þetta meira af gömlum vana eða sið frekar en að trú hafi ráðið för. Þetta hafi þróast út í málvenju, líkt og í fleiri tungumálum, samanber „Gesundheit“ á þýsku og „bless you“ á ensku. Guðrún telur líklegra að í náinni framtíð muni fólk segja, ef það heyrir næsta mann hnerra: „Æ, æ, ertu komin/n með kvef?“

Oh, dear Darwin!

Inga Auðbjörg K. Straumland, formaður Siðmenntar, segir félagið hafa tekið umræðu um svona upphrópanir, þar sem kristin trú kemur við sögu. Það sé ekki óeðlilegt í ljósi tilgangs og stefnu félagsins.

„Ég persónulega reyni að nota ekki mikið af upphrópunum sem snúa að kristni. En auðvitað getur alltaf eitthvað dottið óvart út úr fólki af gömlum vana,“ segir Inga sem sjálf segist oft nota orðið „Gesundheit“ þegar einhver hnerrar við hlið hennar, sem á íslensku mætti leggja út sem „heilsist þér“. Inga segir þá upphrópun einmitt notaða í mörgum löndum og nái einnig til þess þegar verið sé að skála.

Innan Siðmenntar segi einnig margir „blessi þig“ og enn aðrir eigi það til að segja „hættu þessum hamagangi“ eða annað í léttum dúr.

„Ég hef líka stundum sagt „oh dear Darwin“ frekar en að blanda kristni inn í þetta,“ segir Inga.

„Bless“ úr Biblíunni

Gunnlaugur A. Jónsson, guðfræðiprófessor við HÍ, tekur undir það að upphrópanir með vísun í kristna trú séu fátíðari en áður fyrr. Þó telji hann trúna standa sterkari stoðum í einkalífi fólks en það viðurkenni opinberlega, einkum þegar eitthvað bjáti á eða við ástvinamissi. Hins vegar segi menn líklega síður „Guð hjálpi þér“ við hnerra náungans ef menn hafi skrifað upp á að þeir séu ekki trúaðir.

Gunnlaugur bendir á að orðin „blessi þig“ hafi einnig biblíulega skírskotun, sem og algengar kveðjur á borð við „blessaður“ og „bless“.

„Við munum eftir því þegar Geir Haarde endaði sjónvarpsávarp sitt í hruninu 2008 með orðunum „Guð blessi Ísland“. Rætt var um þau orð með háðuglegum hætti en ég bendi á að forsetar Bandaríkjanna segja oft „Guð blessi Ameríku“ og enginn gerir athugasemd við það,“ segir Gunnlaugur.

Á tímum mikillar umræðu um trúmál, og þeirrar staðreyndar að …
Á tímum mikillar umræðu um trúmál, og þeirrar staðreyndar að hér á landi hefur fækkað í þjóðkirkjunni á undanförnum árum, er eðlilegt að spyrja hvort upphrópun á borð við þessa sé á undanhaldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann bætir við að í jarðarförum sé gjarnan sótt í kristna trú, jafnvel þótt hinn látni hafi verið trúlaus. Þannig sé 23. Davíðssálmur, Drottinn er minn hirðir, líklega leikinn í þriðju hverri jarðarför hér á landi. Þá sé Guð oft nefndur á nafn í minningargreinum, eins og „Guð blessi minningu“ hins látna. Þetta sé þó líklega á undanhaldi, eins og með „Guð hjálpi þér“ þegar fólk hnerrar.

Eir orni þér!

Það ætti ekki að koma á óvart að ásatrúarmenn forðast það að ákalla Guð eða Jesú Krist í daglegu tali. Þar er heiðinn siður og trú í öndvegi. Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði segir þessa umræðu með viðbrögð við hnerra vissulega hafa komið upp. Stefán Pálsson sagnfræðingur hafi komið með góða tillögu sem hann reyni að tileinka sér þegar fólk í kringum hann hnerrar, eða „Eir orni þér“. Þar er vísað til læknagyðjunnar en í Snorra-Eddu er talað um að gyðjan Eir hafi verið „læknir bestur“.

„Mér fannst þetta góð tillaga hjá Stefáni, líka miklu betra að óska fólki góðrar heilsu á íslensku frekar en að sletta upp á þýsku. Það hafa margir ásatrúarmenn tekið þetta upp og finnst þetta flott,“ segir Hilmar Örn.

Hann segir ásatrúarmenn að öðru leyti frjálslynda hvað orðnotkun varðar og engum sektum sé beitt þó að menn nefni Guð á nafn.

Skrattinn skili þér!

Pétur Þorsteinsson, prestur Óháða safnaðarins, hefur með nokkrum útgáfum á petrísk-íslenskri orðabók kvatt sér hljóðs með nýstárlegu orðfæri yfir hversdagslega hluti.

 Hann segir að innan safnaðarins ríki fullt frjálsræði um hvað menn segi við fólk sem hnerrar. Ekkert sé að því að tilbiðja Guð í þeim efnum og vel í anda safnaðarins. Hann kjósi frekar að vera á léttu nótunum og segir frekar við fólk „skrattinn skili þér“ eða „fjandinn sé fjarri þér“. Jafnvel noti hann líka „djöfuls óvinur hreppi þig“, þ.e. Guð. Það sé ekki síðri vísun í fyrirbænir á tímum svarta dauða þegar grunur vaknaði um veikindi hjá fólki. En ef fólk hnerri fjórum sinnum í röð sé staðan öllu verri. Þá segi hann frekar „Stalín styrki þig“!

„Auðvitað segi ég þetta meira í fíflagangi við fólk. Það skapast þá léttar umræður og ég get útskýrt fyrir fólki í hverju þetta felst. Við fáum stundum áminningu um að lífið sé fallvalt og veröldin sé ekki alltaf á hreinu,“ segir séra Pétur.

Guði þakkað fyrir

Salmann Tamimi, formaður Félags múslima á Íslandi, segir ákveðna málvenju gilda meðal múslima þegar þeir hnerra. Þá þurfi samskiptin að vera gagnkvæm, ef svo má að orði komast.

„Ef þú hnerrar þá áttu að segja „þakka þér Guð fyrir“ og hinn sem er við hliðina á þér á að segja „megi Guð blessa þig“. Það er þess vegna mikilvægt að sá sem hnerrar þakki Guði sínum. Það er þá merki þess að viðkomandi sé lifandi, þótt hann hafi hnerrað, eða losnað við allt ljótt. Sagt er að hjartað stoppi í augnablik þegar maður hnerrar. Það er þá fyrir Guðs mildi að hjartað kemst í gang aftur. Félagi þinn verður þá að veita blessun sína með því að svara,“ segir Salmann og bendir á að margar þjóðir heims noti svipuð orð. „Guð er til staðar hjá öllum, sem betur fer.“

Siður aftur til 6. aldar

Plágan mikla, svarti dauði, hafði um nokkurt skeið herjað á Evrópu áður en hún náði til Íslands, fyrst árin 1402 til 1404 og síðan aftur 1494-1495. Heimildir eru fyrir því að þá hafi fyrst borið á ákalli á borð við „Guð hjálpi þér“ þegar fólk hnerraði. Kom þá strax upp grunur um að fólk hefði sýkst af pestinni, sérstaklega ef það hnerraði þrisvar eða oftar.

Upphaf þessa siðar má rekja aftur til 590 þegar plága geisaði víða í Evrópu. Þá mun páfinn í Róm, Gregoríus I., hafa fyrirskipað að ef einhver hnerraði eða sýndi önnur veikindamerki skyldi sagt við hann: „Guð blessi þig“. Náði þetta fljótlega útbreiðslu á enskri tungu en í mörgum öðrum tungumálum er fólki óskað góðrar heilsu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka