Erling Ólafsson skordýrafræðingur vakti í dag athygli á tegund kakkalakka sem landlæg er hér á landi með vissu og birti mynd af slíku skordýri, húskakkalakka, sem nýlega fannst í Garðabæ.
„Það loðir við kakkalakka að vera illa þokkaðir. Bara heitið kakkalakki vekur óhug hjá mörgum enda k-in ansi mörg! Fáir vita að í heiminum eru þekktar um 4.600 tegundir kakkalakka. Þeir eru afar áhugaverð skordýr, forn og merkileg að mörgu leyti,“ ritaði Erling á facebooksíðuna Heimur smádýranna sem hann heldur úti með sóma. Erling lýsti yfir ákveðinni samúð með skordýrum af þessari tegund.
„Leitt er að allur hópurinn sem slíkur skuli stimplaður sama óorðsstimpli. Tegundirnar sem stimpilinn verðskulda eru ekki ýkja margar. Kakkalakkar eru flestir frekar stórir og sumir með stærstu skordýrum. Sumir eru æði skrautlegir á lit, stórglæsilegir, og haldnir sem gæludýr víða um heim. Allnokkrar tegundir hafa borist til landsins í gegnum tíðina. Ef til vill er aðeins ein þeirra landlæg hér með vissu og önnur kannski,“ skrifaði hann.
„Húskakkalakki er hér fastur í sessi og blossar stundum upp í nokkrum fjölda þar sem aðstæður eru þess eðlis, húsrými með skúmaskotum og flóknum holrýmum innan veggja og góðu aðgengi að illa vörðum matvælum og grænmetisúrgangi. Það skal viðurkennt að húskakkalakki er til óþurftar og því betra að vera laus við hann,“ skrifaði Erling.
Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands má finna frekari fróðleik um húskakkalakka.