Hrafn Jökulsson hefur gefið kost á sér í embætti forseta Skáksambands Íslands, en með því skilyrði þó að forseti sambandsins sitji án launa.
Frá þessu greinir hann á Facebook-síðu sinni í kvöld og vekur hann athygli á að á undanförnum áratug hefur núverandi forseti, Gunnar Björnsson, fengið um 100 milljónir króna í laun. „Mér finnst það fullreynt, og þykir mér þó vænt um Gunna,“ skrifar Hrafn.
Fjármunina vill Hrafn þess í stað nýta annars vegar í afrekssjóð og hins vegar í ungmennastarf. Að auki vill hann styðja við skáklíf á landsbyggðinni og meðal hópa sem helst þurfa á að halda.
Stjórn Skáksambands Íslands er kosin á aðalfundi sambandsins og er kjörtímabil eitt ár. Síðasti aðalfundur félagsins fór fram í júní og því gæti Hrafn þurft að bíða í nokkra mánuði uns ljóst verður hvort hann njóti stuðnings í embætti formanns.