Munnlegur málflutningur í landsréttarmálinu fyrir yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu fer fram 5. febrúar 2020. Þetta kemur fram í bréfi sem málsaðilar fengu í dag og RÚV greinir frá.
Í bréfinu kemur fram að málsaðilar hafa til 4. febrúar að skila gögnum í málinu. Málflutningur verður daginn eftir, 5. febrúar, fyrir hádegi. 17 dómarar eru skipaðir í málinu.
Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í mars að skipun tiltekins dómara við Landsrétt hefði falið í sér brot gegn grein mannréttindasáttmála Evrópu og var ríkið dæmt til að greiða 15 þúsund evrur í málskostnað. Stjórnvöld áfrýjuðu dómnum en í síðustu viku ákvað yfirdeild Mannréttindadómstólsins að taka málið fyrir.
Afar sjaldgæft er að yfirdeild dómstólsins taki upp mál sem neðri deildin hefur fjallað um, eða aðeins í um fimm prósentum tilvika.
Málsmeðferð gæti tekið á bilinu eitt til tvö ár og hefur stjórn dómstólasýslunnar ítrekað fyrri yfirlýsingar um nauðsyn þess að fjölga dómurum við Landsrétt, sérstaklega á meðan niðurstöðu yfirdeildar er beðið.