„Það eru alltaf fleiri og fleiri sem hafa áhuga á hráefnunum sjálfum og uppruna þeirra og vilja áhugaverðar og framsæknar vörur sem framleiddar eru á heiðarlegan hátt. Við tilheyrum þessum hópi fólks og ég vona að það muni skila sér í framleiðslunni,“ segir Sturlaugur Jón Björnsson bruggmeistari sem er einn aðstandenda Öglu gosgerðar sem nú hyggst ryðja sér til rúms.
Fyrsta tilraunalögun Öglu gosgerðar kallast Djöflarót og hefur verið dreift í afar takmörkuðu upplagi. Drykkurinn fæst nú á veitingastaðnum Skál í Hlemmi mathöll og mun rata á fleiri veitingastaði á næstu dögum.
Djöflarót er að sögn Sturlaugs gamalt íslenskt orð yfir engiferrót og drykkurinn sver sig í ætt við engiferbjór (Ginger Beer) sem notið hefur sívaxandi vinsælda síðustu misseri. Sturlaugur segir að öfugt við marga erlenda engiferbjóra séu eingöngu notuð náttúruleg alvöruhráefni í Djöflarót og engin gervi- eða viðbætt bragðefni.
Sturlaugur hefur verið viðloðandi Borg brugghús sem hefur verið leiðandi í gerð handverksbjóra er slegið hafa í gegn hér á landi. Meðfram þeim störfum hefur hann gert tilraunir í að framleiða gos sem nú verður sett á markað. Sama hugmynd liggur að baki gosgerðinni og bjórgerð Sturlaugs; að vanda til verka og nota hágæða hráefni.
„Við erum með allskonar uppskriftir í pípunum, allt frá endurgerð á gömlum gosdrykkjarstílum sem ekki hafa sést í áratugi hérlendis, yfir í nýjar og framsæknari hugmyndir. Við höfum verið að gera tilraunir með íslenskt hráefni og erum virkilega spennt yfir því að klára þær,“ segir Sturlaugur. Hann segir að Agla framleiði ekki heilsudrykki en forsvarsmönnum hennar sé annt um leiðréttingu skammtastærða almennings. „Við veljum gæði umfram magn. Það er bannað að þamba!“