Nýi vegurinn um Þingvelli var formlega opnaður í dag en vegurinn hefur verið lokaður í allt sumar. Einar Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, segir nýja veginn auka umferðaröryggi í þjóðgarðinum til muna en einnig bæta aðstöðu vegfarenda til að njóta útsýnisins.
mbl.is var á Þingvöllum í dag þegar vegurinn var opnaður formlega og ræddi við Einar sem er að vonum ánægður með nýju samgöngubótina en framkvæmdir hófust ý fyrrasumar og seinni áfanga verksins lauk formlega í dag.
Á sama tíma er sú breyting gerð að vegurinn um Vatnsvík, svokallaður Vallavegur þangað sem umferð hefur verið beint í sumar, verður gerður að botnlanga. Vegurinn verður framvegis einungis opinn að norðan og því ekki hægt að keyra um hann í gegnum Þingvelli.
Það voru þau Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra, Ari Trausti Guðmundsson, formaður Þingvallanefndar, og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, sem klipptu á borða við formlega opnun á veginum í dag.
Umferð um veginn hefur aukist verulega á undanförnum árum. Árið 2010 var umferð um 430 bílar á sólarhring en árið 2016 var umferðin 1.500 bílar á sólarhring sem er 250% aukning. Gert er ráð fyrir að eftir 25 ár verði umferðin allt að 4.000 bílar á sólarhring.
Áætlaður heildarkostnaður er 767 milljónir króna en búast má við að sú tala hækki talsvert vegna framkvæmda á Vallavegi. Vegurinn var að jafnaði breikkaður um tvo metra og er nú 8 metrar á breidd og er malbikaður til að bæta hljóðvist. Útskotum var fækkað en þau voru áður 50. Í dag eru fjögur bílastæði á veginum, þrjú 8-10 bíla og eitt fyrir 25 til 30 bíla.
Á veginum verður sem fyrr 50 km hámarkshraði sem Einar segir hafa verið skýra kröfu af hálfu Þjóðgarðsins.