Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, segir það grafalvarlegt mál að ráðist sé að ríkislögreglustjóra fyrir að ræða spillingu innan lögreglunnar og að hann hafi ekki talað við þar til bær yfirvöld. Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld. Hún kallar eftir svörum um það sem fram kom á fundi dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóra í dag um þennan anga ólgu innan lögreglunnar sem verið hefur til umfjöllunar hjá fjölmiðlum undanfarna daga, m.a. í löngu viðtali við Morgunblaðið sem Þórhildur Sunna vísaði í.
„Þar er ríkislögreglustjóri í fyrsta lagi að tala um að hann geti ekki losað sig við óhæfa starfsmenn vegna þess að hið opinbera geti ekki talað um allt sem viðkemur opinberum starfsmönnum. Þar með sitji þeir uppi með vanhæfa starfsmenn. Þetta finnst mér heldur hörð orð frá honum,“ sagði Þórhildur Sunna.
„Síðan er það annað, sem þarna kemur fram, að þarna sé hagsmunagæsla og pólitík. Það í sjálfu sér er ásökun um spillingu innan lögreglunnar. Fyrir utan þá beinu tilvísun sem hann hefur um að það þyki ekki vinsælt innan lögreglunnar að hann sé að tala um spillingu. Það eitt og sér veldur mér áhyggjum að hann segi að það að hann hafi rætt spillingu innan lögreglunnar verði þess valdandi að ráðist sé gegn honum. Það er þá gríðarlega alvarlegt ef rétt reynist,“ sagði Þórhildur Sunna.
„Hann talar um í þessu viðtali að hann viti um dæmi um að lögreglumenn séu að taka að sér óeðlileg aukahlutverk. Hann vilji ekki nefna nein tilvik, en þeir sem þekki til viti um hvað hann er að tala,“ sagði Þórhildur Sunna og sagði þetta hálfkveðna vísu.
Þórhildur Sunna spurði Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra út í það í þinginu í dag hvort hún væri ein þeirra sem vissu um hvað væri rætt. „Hún gengst við því að þetta hafi verið rætt á þessum fundi, að hún hafi einhver svör og að þetta sé í einhverjum farvegi. Mér fannst þetta frekar endasleppt svar hjá dómsmálaráðherra,“ sagði hún.
Líneik Anna Sævarsdóttir, 1. varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, var einnig gestur Kastljóss. Hún sagði málið háalvarlegt. „Það er mjög mikilvægt að farið sé ofan í þetta og öllu fylgt eftir sem þarna hefur komið fram. Það verður hins vegar að gerast innan ráðuneytisins,“ sagði hún. Spurð hverju rannsókn ríkisendurskoðunar gæti skilað svaraði hún því til að þar yrði rætt um hvort skipulag lögreglunnar væri í lagi og meðferð opinbers fjár. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd myndi síðan fá skýrsluna í hendur og geta kallað fólk á sinn fund úr ráðuneytinu og fulltrúa lögreglu. Innra eftirlit lögreglu fylgdi eftir brotum lögreglumanna í starfi.
Spurð um næstu skref og hvaða ráða væri hægt að grípa til sagði Þórhildur Sunna mikilvægt að rætt yrði við dómsmálaráðherra um það hvaða skref hún ætlaði að taka. Þá sagði hún að persónulega vildi hún fá ríkislögreglustjóra á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til þess að skýra orð sín. „Annaðhvort er um að ræða spillingu sem snýr að því að hrekja þennan mann úr embætti vegna þess að hann er að berjast gegn spillingu og hefur sínar hugmyndir, það er ákveðin spilling, eða þá að hann er ekki að segja satt og rétt frá og skjóta sendiboðann gagnvart því sem verið er að kvarta undan hjá honum,“ sagði Þórhildur Sunna.
Líneik Anna sagði útilokað að þingnefndin færi í að kanna hvað lægi að baki málinu. Dómsmálaráðherra leiddi þá vinnu og nefndin veitti ráðherranum aðhald. „Nefndin kallar þá dómsmálaráðuneytið til til að fara yfir þessa vinnu sem var að hefjast í dag,“ sagði hún. Spurð hvort dómsmálaráðherra yrði kallaður fyrir nefndina, sagði hún að á einhverjum tímapunkti gæti það gerst. „Mér finnst það ekki tímabært núna. Fyrsta viðtal um þetta mál fór fram í dag og ákveðin vinna var sett í gang. Mér finnst mikilvægt að sú vinna nái fram að ganga í einhvern tíma og síðan fái nefndin skýrslu um málið,“ sagði hún.