Þegar Landlæknisembættið framkvæmdi úttekt á bráðadeild Landspítalans í desember á síðasta ári voru 35 rúm lokuð vegna mönnunarskorts og að sögn landlæknis hefur það ekki lagast. Alma D. Möller landlæknir segir að gera þurfi betur.
„Við gerðum úttekt í desember þar sem allt þetta sama kom í ljós, sjúklingar þurftu að bíða of lengi á bráðamóttöku og það voru of margir sjúklingar að bíða í einu,“ segir Alma í samtali við mbl.is. Jákvætt hafi verið að deildin náði að rækja bráðahlutverk sitt vel, en vandinn hafi verið að þar tepptust sjúklingar sem voru að bíða eftir að fá pláss inni á spítalanum. „Það var líka of mikið af álagi á starfsfólk og atvikum hafði fjölgað.“
Vandinn var tvíþættur. „Annars vegar útskriftarvandinn, sem er til kominn vegna skorts á úrræðum utan spítalans og svo mönnunarvandi sem er til kominn vegna skorts á hjúkrunarfólki og sjúkraliðum.“
Landlæknisembættið hóf í sumar eftirfylgd með úttektinni sem framkvæmd var síðasta vetur, og segir Alma hana vera langt komna. „Frumniðurstöður benda til þess að það hafi verið gert mjög margt í kjölfar úttektarinnar.“ Þannig hafi bæði verið opnuð fleiri hjúkrunarrými og svo hafi sjúkrahótelið tekið til starfa og þetta hafi haft góð áhrif. „Betur má hins vegar ef duga skal og það er enn útskriftarvandi til staðar og það eru enn jafnmörg rúm, þ.e. 35, lokuð vegna mönnunarskorts þannig að það þarf að gera betur í að bæta mönnun.“
Spurð hvort Landlæknisembættið sem eftirlitsaðili geti gripið til einhverra ráða annarra en að koma með ábendingar segir hún svo ekki vera í tilfelli stofnunar sem er jafn umfangsmikil og Landspítalinn. „Við höfum ekki önnur úrræði en að benda á vandann og koma með tillögur til úrbóta og það er svo annarra að vinna úr þeim.“
Segist Alma þegar vera búin að kalla eftir upplýsingum frá heilbrigðisráðuneyti og Landspítala um hvað sé verið að gera til að vinna á mönnunarvandanum.