Verðlaun veitt á degi íslenskrar náttúru

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ásamt Jóni Stefánssyni, kennara …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ásamt Jóni Stefánssyni, kennara við Hvolsskóla á Hvolsvelli. Ljósmynd/Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, veitti í dag á degi íslenskrar náttúru Sagafilm fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Jóni Stefánssyni náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Sagafilm hlaut fjölmiðlaverðlaunin fyrir sjónvarpsþáttaröðina „Hvað höfum við gert?“ sem sýnd var í Ríkisútvarpinu. Fram kemur í rökstuðningi dómnefndar að með þáttaröðinni hafi fyrirtækinu tekist að setja loftslagsmálin rækilega á dagskrá í íslensku samfélagi og tekist að virkja umhverfisvitund almennings með áberandi hætti. Dómnefndina skipaði fjölmiðlafólkið Ragna Sara Jónsdóttir formaður, Kjartan Hreinn Njálsson og Valgerður Anna Jóhannsdóttir.

Jón Stefánsson hlaut náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti fyrir að hafa skarað fram úr sem kennari við Hvolsskóla á Hvolsvelli „með sínum óþrjótandi áhuga á að nýta nærumhverfi barnanna – náttúruna á heimaslóðum þeirra – til kennslu, rannsókna og upplifunar.“ Þannig hafi nemendur hans verið virkir þátttakendur í fjölda náttúrutengdra verkefna og fundið á eigin skinni hvernig náttúran breytist og bregst við athöfnum mannanna að því er segir í umsögn ráðherra.

Aðstandendur þáttaraðarinnar Hvað höfum við gert? ásamt Guðmundi Inga Guðbrandssyni, …
Aðstandendur þáttaraðarinnar Hvað höfum við gert? ásamt Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Rögnu Söru Jónsdóttur, formanni dómnefndar. Ljósmynd/Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert