Lögreglustjórafélag Íslands átti í morgun Skype-fund um umfjöllun fjölmiðla síðustu daga um embætti ríkislögreglustjóra.
Í yfirlýsingu sem Lögreglustjórafélagið sendi frá sér að fundi loknum var vísað til fréttatilkynningar félagsins fyrir viku, þar sem fram kom að ekki væri fótur fyrir meintri valdabaráttu og togstreitu um fjármuni milli lögregluembætta í landinu, þrátt fyrir yfirlýsingar ríkislögreglustjóra.
„Nýlegar breytingar á skipan lögreglumála hafa gefist vel og hefur verið góð samvinna milli lögregluembætta. Ríkislögreglustjóri sætir gagnrýni. Þeirri gagnrýni verður ekki svarað með bollaleggingum ríkislögreglustjóra um breytta skipan löggæslu í landinu,“ sagði í tilkynningu Lögreglustjórafélagsins hinn 9. september og kveðst félagið eftir fundinn í morgun ekki munu tjá sig frekar um málið að svo stöddu.