Vænst er að fyrir lok næsta árs verði gengið frá síðustu samningum Fjarskiptasjóðs við sveitarfélög um lagningu ljósleiðara í sveitum landsins. Unnið hefur verið að framgangi málsins frá 2015 og í upphafi var ætlunin að leiðari yrði tengdur á alls 3.880 bæi á dreifbýlum svæðum.
Nú er útlit fyrir að tengingarnar verði alls um 6.000 talsins. Unnið hefur verið að framgangi þessa máls á vegum Fjarskiptasjóðs undir formerkjum verkefnisins Ísland ljóstengt. „Þessi framkvæmd hefur bætt búsetuskilyrði í sveitum landsins til muna,“ segir Haraldur Benediktsson alþingismaður sem situr í stjórn Fjarskiptasjóðs.
Ljósleiðaraverkefninu voru á sínum tíma eyrnamerktir um 2,5 milljarðar króna og því á að vera lokið, samningum samkvæmt, í lok árs 2021, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
„Verkefninu hefur miðað ágætlega. Nú er ljósleiðaratenging komin á, til dæmis í Flóanum og uppsveitunum í Árnessýslu og víðar á Suðurlandi, Borgarfjörðurinn er kominn vel af stað og Húnavatnssýslurnar og lengi mætti telja. Mjög víða er verkinu lokið. Víða er aðeins lokaáfangi eftir. Í einhverjum tilfellum hafa utanaðkomandi aðstæður seinkað verkefninu.“ Haraldur Benediktsson sem lítur svo á að ljósleiðarinn sé um margt tenging dreifbýlisins við samfélag nútímans og upplýsingasamfélagið.