„Eigum við að vera á tveimur stöðum á sama tíma?“

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/​Hari

Til nokkuð snarpra orðaskipta kom í þingsal við upphaf þingfundar klukkan 13.30 í dag. Þingmenn stjórnarandstöðunnar stigu í pontu og mótmæltu skipulagsleysi en þingmenn höfuðborgarsvæðisins höfðu verið boðaðir á fund í tengslum við endurbætur á samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu á sama tíma og þingfundur átti að fara fram.

„Eigum við að vera á tveimur stöðum á sama tíma?“ spurði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar. Hún, Logi Einarsson, Þorsteinn Víglundsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Guðmundur Ingi Kristinsson stigu öll í pontu og kvörtuðu yfir skipulagsleysinu.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra hafði boðað þingmenn höfuðborgarsvæðisins á fund klukkan 15.00 þar sem ræða átti vegtolla á höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma á að ræða skattamál á þingi.

Þorgerður Katrín minntist á að fundur Sigurðar Inga snerist um hærri skatta á höfuðborgarsvæðinu. Steingrímur J. Sigfússon þingforseti sagði skattamál ekki til umræðu undir liðnum fundarstjórn forseta. Þorgerður svaraði Steingrími og sagði málfrelsi á þingi.

„Ekki í framíköllum við forseta,“ svaraði Steingrímur.

Eftir nokkurn reiðilestur þingmanna stjórnarandstöðunnar greindi Steingrímur frá því að búið væri að fresta fundinum um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu um óákveðinn tíma. 

„Geta nú allir tekið gleði sína,“ sagði Steingrímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert