„Konur og minnihlutahópar standa hvað verst þegar skipulega er grafið undan mannréttindum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherr, í opnunarávarpi alþjóðlegrar ráðstefnu um #metoo-hreyfinguna sem hófst í dag og stendur fram á fimmtudag. Yfir 800 manns hafa skráð sig til þátttöku á ráðstefnunni sem er liður í formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og skipulögð í samvinnu við RIKK, rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands.
Katrín beindi meðal annars sjónum að óstöðugu stjórnmálaástandi víða um heim og sagði það hafa valdið afturhvarfi til þjóðernishyggju og að skipulega væri grafið undan mannréttindum.
„Tvö ár eru síðan milljónir kvenna um allan heim notuðu myllumerkið metoo sem er í senn einfalt en öflugt. Með því að gera það vörpuðu þær ljósi á hversdagslega áreitni, ofbeldi á öllum stigum samfélagsins. Með myllumerkinu varð ljóst kynþáttalegt eðli ofbeldis, áreitni og viðvarandi mismunun. Áhrif #metoo voru mismunandi milli landa. Í sumum þeirra voru áhrifin gríðarleg, í öðrum voru þau minni. Í stjórnmálum, fyrirtækjum og óhagnaðardrifnum samtökum átti sér stað kollvörpun. Konur sem höfðu kjark til þess að tala opinskátt um hlutina voru skyndilega teknar trúanlega sem var mikil breyting og einblínt var á gerendur,“ sagði Katrín og varpaði fram spurningum um það hver næstu skref væru.
„Hvernig og hvers vegna gerðist þetta? Almenningsálitið breyttist, en er þetta varanleg breyting til hins betra eða aðeins lítill gluggi sem opnaðist en verður lokað aftur? Hvernig getum við tryggt að sameiginlegar kröfur okkar verði að formföstum breytingum? Þetta eru áleitnar spurningar sem við munum leita svara við á næstu dögum,“ sagði hún og fjallaði þá um áhrif #metoo-hreyfingarinnar á Íslandi.
„Eftir því sem áhrif #metoo urðu meiri hér á Íslandi hófu aðgerðarsinnar að safna saman sögum kvenna sem þeim deildu. Lokaðir facebookhópar kvenna úr mismunandi geirum voru vettvangurinn þar sem hægt var að deila sögum nafnlaust, en þar voru líka settar fram kröfur um breytingar,“ sagði Katrín.
„Eftir því sem hreyfingin stækkaði hófu konur í karllægum geirum að segja frá sinni hlið og í ljós kom að eftir því sem veikar konur standa í sínum geirum, því hræðilegri eru sögurnar. Þegar konur í hópi innflytjenda hófu upp raust sína varð okkur mörgum bilt við hér á Íslandi. Þær lýstu viðvarandi mismunun sem við höfðum vonast til að ekki viðgengist hér á Íslandi,“ sagði Katrín og kvaðst trúa því að slík væri staðan annars staðar á Norðurlöndum líka. Þetta væri eitt meginviðfangsefnanna, þ.e. kynþáttaleg mismunun og mismunun milli stétta. Hún benti á að fatlaðar konur hefðu ekki talað með skipulögðum hætti líkt og margir aðrir hópar og ekki fórnarlömb mansals heldur. Þessa hópa þyrfti að leggja áherslu á.
Katrín þakkaði því næst #metoo-hreyfingunni fyrir þann árangur sem hefði náðst, bæði þeim konum sem sögðu sögu sína, söfnuðu þeim, greindu þær og töluðu opinberlega um misrétti gagnvart konum. „Við sjáum ykkur og erum óendanlega þakklát fyrir ykkar vinnu,“ sagði Katrín og vísaði síðan til alþjóðlegs samhengis umræðunnar um #metoo og benti á að víða um heim stæðu konur höllum fæti hvað fóstureyðingar varðaði. Hún sagði að ofstækisfull stjórnmálastefna væri víða til marks um afturhvarf til þjóðernishyggju og græfi þar að auki skipulega undan mannréttindum. „Þegar grafið er undan mannréttindum standa konur og minnihlutahópar verst,“ sagði hún. „Á meðan við fögnum þeim árangri sem náðst hefur, þurfum við að safna kröftum og sameinast í baráttu fyrir vernd mannréttinda á heimsvísu.“
Sem fyrr segir stendur ráðstefnan fram á fimmtudag, en á morgun verður meðal annars sagt frá tillögum óbirtrar skýrslu UN WOMEN undir yfirskriftinni What will it take? Promoting Cultural Change to End Sexual Harrassment. Þar eru greindar þær breytingar sem taldar eru nauðsynlegar í kjölfar #metoo, bæði formlegar og samfélagslegar, að því er fram kemur á vef stjórnarráðsins.
Einnig verður fjallað um niðurstöður rannsóknar á umfangi kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis auk eineltis á íslenskum vinnumarkaði sem unnin var að frumkvæði Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra. Þá mun Angela Davis, prófessor og rithöfundur, flytja lykilerindi um áhrif #metoo-hreyfingarinnar.