Skráð atvinnuleysi á landinu mældist 3,5% í ágúst og breyttist nær ekkert frá mánuðinum á undan samkvæmt nýju vinnumarkaðsyfirliti Vinnumálastofnunar (VMST).
Fjöldi atvinnulausra í sumar er í samræmi við spár um vöxt atvinnuleysis á árinu en alls voru 2.489 fleiri einstaklingar skráðir atvinnulausir í seinasta mánuði en í ágústmánuði fyrir ári. Þarf að leita allt aftur til ársins 2013 til að finna hærra hlutfall atvinnulausra í ágústmánuði en þá var 4% atvinnuleysi á landinu. Fyrir tveimur árum var atvinnuleysið í ágúst komið niður í 1,9% yfir landið til samanburðar.
Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað hratt á vinnumarkaðinum og kemur atvinnuleysið sérstaklega þungt niður á þeim. Fram kemur í skýrslu Vinnumálastofnunar að alls voru 2.605 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok ágúst eða um 36% allra atvinnulausra. ,,Þessi fjöldi samsvarar um 7,4% atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara. Þetta er talsverð aukning frá því í ágúst 2018 þegar hlutfall atvinnulausra erlendra ríkisborgara var um 33% allra atvinnulausra eða sem svarar um 4,9% atvinnuleysi,“ segir í greinargerð VMST.
Hafa aldrei verið fleiri erlendir ríkisborgarar skráðir á atvinnuleysisskrá í einum mánuði en í seinasta mánuði að því er lesa má út úr atvinnuleysistölum, sem um er fjallað í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag.