Salan tvöfaldast milli ára

Guðmundur Tryggvi Ólafsson rekstrarstjóri efnismiðlunar Góða hirðisins ásamt Hafsteini U. …
Guðmundur Tryggvi Ólafsson rekstrarstjóri efnismiðlunar Góða hirðisins ásamt Hafsteini U. Hallssyni, verslunarstjóra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ef þú hyggst fara í framkvæmdir heima hjá þér og þér óar við að þurfa að kaupa allt nýtt gætu þessir sömu hlutir leynst í Efnismiðlun Góða hirðisins á Sævarhöfða. Þar eru meðal annars vaskar, bæði úr postulíni og stáli, úti- og innihurðir, hellur, timbur, gluggar og margt fleira sem gæti nýst útsjónasömum hagleikssmiðum.  

Efnismiðlun Sorpu var opnuð í maí í fyrra og býður efni falt gegn lágu gjaldi sem annars færi beint á haugana. Efnið er í nokkrum gámum og á útisvæði þar í kring. Salan hefur aukist jafnt og þétt, að sögn Guðmundar Tryggva Ólafssonar, rekstrarstjóra Efnismiðlunarinnar. Til að mynda hefur salan tvöfaldast á þessu sumri frá því sem var síðasta sumar.  

Gott úrval er af hurðum í Efnismiðluninni.
Gott úrval er af hurðum í Efnismiðluninni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Talsverð eftirspurn er eftir efni sem aðrir losa sig við í framkvæmdum sem oftar en ekki er nokkuð heillegt. Dæmi eru um að nýir vaskar enn í kössunum rata þangað og oftar en ekki eru blöndunartækin einnig heil. Þeir sem eru í framkvæmdum t.d. í garðvinnu, í sumarbústað, í hesthúsi eða vilja sinna listagyðjunni eru á meðal viðskiptavina Efnismiðlunarinnar. 

„Við létum gera þarfagreiningu á því hverjir væru hugsanlegir kaupendur og hvaða vöruflokka þeir vildu kaupa,“ segir Guðmundur Tryggvi. Út frá þessum upplýsingum var unnið þegar Efnismiðlunin var opnuð. Eftir árs reynslu af starfseminni er stefnt að því að bæta við efnisflokkum sem byggist meðal annars á óskum viðskiptavina. Þetta er meðal annars plastmálning og járn, t.d. rör þess háttar að því gefnu að hægt sé að útvega þetta efni.  

Vaskarnir eru margir í Efnismiðluninni.
Vaskarnir eru margir í Efnismiðluninni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sá vöruflokkur sem selst vel er útihurðir en þær seljast margfalt betur en innihurðir. „Að jafnaði eigum við fáar útihurðir. Þær fara alltaf strax,“ segir Guðmundur. Hurðirnar eru ýmist með körmum eða án, glerjaðar og allt þar á milli. Af garðvörum sem seldar eru eru steyptar hellur vinsælastar.  

„Við ráðum svo ekkert við magnið sem kemur. Stundum kemur mikið af ýmsu og lítið af öðru,“ segir Guðmundur. Spurður hvað hafi komið mest á óvart sé það eftirspurn eftir bílavörum. „Við erum ekki bílapartasala, ég tek það fram, en margir vilja kaupa dekk,  felgur og aukahluti eins og þakbogaEftirspurnin eftir þessum vörum er ástíðarbundin og við erum að sigla inn í þennan tíma núna þegar fólk setur vetrardekkin undir,“ segir Guðmundur. 

Fyrir jólin óskar fólk eftir eldiviði til að setja í arininn. Hins vegar þarf timbrið að vera þurrt til að hægt sé að brenna það ef vel á að vera. Núna er því tilvalið að huga að því að viða að sér við svo hann verði nægilega þurr um jólin. 

Hægt er að gera góð kaup á hjólum í Efnismiðluninni.
Hægt er að gera góð kaup á hjólum í Efnismiðluninni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjólin á Sævarhöfða hafa runnið út í sumar og hefur fleiri þúsundum reiðhjóla frá endurvinnslustöðvunum verið ráðstafað til endurnota. Þangað koma reiðhjól sem ekki hafa verið gefin áfram til barna og unglinga í gegnum Barnaheill  sem starfar með Sorpu eða hafa verið seld í Góða hirðinum. Hjólin sem eru á Sævarhöfða koma yfirleitt beint þangað. „Mér finnst gott að við getum stuðlað að aukinni hjólanotkun,“ segir Guðmundur.   

„Fólk mætir hingað við opnun, kl. 12.00, alveg eins og í Góða hirðinum. Áhuginn er vaxandi en við auglýsum varla neitt, nema á samfélagsmiðlum. Þetta hefur spurst út, maður á mann,“ segir hann.  

Þeir sem telja sig vera með gott efni í höndunum sem hægt væri að koma áfram í not í gegnum Efnismiðlunina geta komið með það á Sævarhöfða. Eða afhent starfmönnum á öðrum endurvinnslustöðvum efnið sem koma því í til skila. 

Hellurnar eru eftirsóttar.
Hellurnar eru eftirsóttar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert