Fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis var frestað eftir einungis um fimm mínútur í morgun en eina málið sem átti að vera á dagskrá var kosning formanns nefndar. Jón Gunnarsson hefur gegnt formennsku síðan Bergþór Ólason vék eftir Klaustursmálið.
Fram kemur á vef RÚV að þegar Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, stakk upp á því að Miðflokksmaðurinn Karl Gauti Hjaltason yrði formaður, í stað Bergþórs sem fulltrúi minnihlutans, var fundi slitið.
Björn Leví, áheyrnarfulltrúi Pírata, segir í samtali við mbl.is að þegar hann stakk upp á Karli Gauta í stað Bergþórs hafi fundi verið frestað í skamma stund.
Mínútu síðar var fundur settur aftur en þó óskaði Líneik Anna Sævarsdóttir, fulltrúi Framsóknarflokks, eftir því að meirihlutinn fundaði saman og þá var fundi slitið.
„Samkomulagið sem gert var snýr að því að Miðflokksmaður sé formaður. Þá getur Karl Gauti alveg eins verið þar eins og Bergþór. Það ætti ekki að vera neitt vandamál að leggja hann til,“ segir Björn Leví.
Spurður hvernig Karli Gauta hafi litist á tillögu Björns segir Píratinn að Karl hafi sagt að hann myndi hafna henni.
Ekki er vitað hvenær fundað verður um formennsku í nefndinni.