Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, telur ástæðulaust að hafa áhyggjur af því að Huawei gæti komist í stjórnkerfi á Íslandi í gegnum „bakdyr“ fyrirhugaðs 5G-kerfis.
Tilefnið er að Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, varaði í heimsókn sinni íslensk stjórnvöld við að nota búnað frá kínverska fjarskiptarisanum Huawei. Þá meðal annars af öryggisástæðum.
Svo vill hins vegar til að Vodafone og Nova nota að hluta búnað frá Huawei. Unnið er að innleiðingu 5G-kerfisins á Íslandi og segir Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, að stefnt sé að því að taka nýja kerfið í notkun 2020. Nova taki öryggismálin mjög alvarlega.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, ESB vera að móta stefnu varðandi 5G-kerfið sem hafi ekki verið innleidd í EES-samninginn.
Hrafnkell segir aðspurður að svonefndar birgjakeðjur og öryggi þeirra sé til umræðu um allan heim. Til að tryggja öryggi þurfi að skoða allan búnaðinn. Það komi m.a. til greina að horfa til flugiðnaðarins og vottunar allra íhluta í fluginu. Slík vinnubrögð geti hugsanlega gagnast fyrir fjarskiptakerfi. Hann telji rétt að horfa á málið í stóru samhengi en ekki einskorða umræðuna við einstök félög.