Í 6. sæti félagslegra framfara

Rósbjörg Jónsdóttir, fulltrúi Social Progress Imperative, á Íslandi.
Rósbjörg Jónsdóttir, fulltrúi Social Progress Imperative, á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland lendir í 6. sæti af 149 þjóðum heims á lista stofnunarinnar Social Progress Imperative (SPI) þegar mæld eru lífsgæði og styrkur félagslegra framfara. Norðmenn eru efstir á listanum, annað árið í röð, og fyrir neðan þá koma Danir, Svisslendingar, Finnar og Svíar. Fyrir neðan Ísland á topp-10 listanum eru Nýsjálendingar, Þjóðverjar, Kanadabúar og Japanir.

Úttekt þessi hjá SPI er nú gerð í sjötta sinn. Í ár er tekið mið af því hvar þjóðir heims standa þegar kemur að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Vísitalan hjá SPI segir til um hæfni samfélaganna til að mæta grunnþörfum borgaranna, stuðla að og viðhalda lífsgæðum þeirra og veita einstaklingum tækifæri til betra lífs. Í tilkynningu frá SPI á Íslandi er vísitalan sögð endurspegla heildstæða mynd af samfélagslegum og umhverfislegum þáttum og aðgreini sig þannig frá öðrum mælikvörðum.

Ísland í 1. sæti í 15 flokkum

SPI mælir alls 51 undirþátt í sinni vísitölu. Þegar horft er til allra þessara þátta hafa 137 þjóðir af 149 verið að bæta sig frá árinu 2014, þegar fyrsta mæling SPI fór fram.

Sem fyrr segir skorar Noregur hæst, fær núna 90,95 stig af 100 mögulegum og sýnir framfarir á öllum sviðum. Ísland er í sjötta sætinu með 89,29 stig og hefur síðan 2014 sýnt nokkurn stöðugleika í mælingunum. Hefur Ísland ekki verið með betri útkomu í mælingum SPI. Af þessum 51 undirþætti er Ísland í 1. sæti í 15 flokkum. 

Einn helsti veikleiki Íslands samkvæmt úttekt SPI er í undirþáttum sem mæla málefni umhverfisgæða, vatns og hreinlætis. Þar erum við eftirbátar þeirra þjóða sem hafa sambærilegar tekjur. Lægsta skor Íslands, eða 62,36, er síðan gagnvart framhaldsmenntun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert