Rakel Theodórsdóttir, móðir drengs með skarð í mjúkgómi, hefur kært þá niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands að synja beiðni um að SÍ taki þátt í kostnaði í nauðsynlegum forréttingum barnsins, sem framhald af aðgerðum sem þegar hafa verið gerðar á drengnum.
Kæran var send til úrskurðarnefndar velferðarmála í fyrradag. Rakel, sem er fyrrverandi stjórnarmaður í Breiðum brosum, samtökum foreldra barna sem fædd eru með skarð í vör og/eða gómi, upplýsir um kæruna á facebooksíðu sinni. Í niðurlagi færslu sinnar segir hún: „Mismunun barna á ekki að líðast.“
Morgunblaðið fjallaði um baráttu foreldra, Foreldrafélagsins Breiðra brosa og Félags langveikra barna í janúar á þessu ári, þar sem Rakel og Ragnheiður Sveinþórsdóttir, móðir drengs sem fæddist með skarð í harðgómi, fögnuðu breyttri reglugerð Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, sem hafi verið til hagsbóta fyrir börn með skarð í gómi, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.