Snýst um þrá eftir réttlæti

Nicole Leigh Mosty og Sunna Kristinsdóttir fluttu yfirlýsingu fundarins á …
Nicole Leigh Mosty og Sunna Kristinsdóttir fluttu yfirlýsingu fundarins á íslensku og ensku. mbl.is/Hari

Fyrir mörg okkar sem hér stöndum er þetta ekki spurning um tölfræði eða prósentur. Þetta snýst um okkar eigin upplifanir og sársauka, eða einhvers sem stendur okkur nærri,“ sagði Sunna Kristinsdóttir á þöglum mótmælum fyr­ir utan skrif­stofu héraðssak­sókn­ara í dag.

Í til­kynn­ingu frá skipu­leggj­end­um seg­ir að til­efnið sé ærið, en á ár­un­um 2002-2015 voru 65% nauðgun­ar­mála á Íslandi felld niður af hálfu sak­sókn­ara og fóru því aldrei fyr­ir dóm.

Sunna sagði þetta snúast um líf sem væri á augabragði rústað og þá löngu leið sem væri til að byggja sig upp eftir það. „Þetta snýst um þrá eftir réttlæti,“ sagði hún.

Hún benti á að ákvörðun um hvort máli skyldi fellt niður væri tekin af tveimur starfsmönnum héraðssaksóknara. Þeim væri skylt að fella niður mál sem teldust „ólíkleg til sakfellis“. Sunna sagði að stundum væri neitun geranda einfaldlega nóg til að mál teldist ólíklegt til sakfellis.

Frá mótmælunum.
Frá mótmælunum. mbl.is/Hari

Það er óviðunandi að nauðgun, einn alvarlegasti glæpurinn í samfélagi okkar, sé nánast refsilaus. Það er óásættanlegt að tveimur af hverjum þremur brotaþolum sé neitað um tækifæri til að láta á mál sitt reyna fyrir dómstólum,“ sagði Sunna. 

Hún bætti við að í lýðræðisríki ætti valdið til að skera úr um sekt eða sakleysi að tilheyra dómurum, ekki embættisfólki. Því hefði verið mótmælt með því að standa í þögninni.

mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert