„Íbúum hér á svæðinu fjölgar sem er ánægjulegt. Sem dæmi má nefna að hér er minnst fækkun barna í dreifbýli á landinu og börnum í skólanum fjölgar. Sú staðreynd veit á gott um framtíðina,“ segir Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, nýr sveitarstjóri í Húnaþingi vestra.
Hún kom til starfa nyrðra 15. ágúst. Það segir nokkuð um stöðu mála á svæðinu að henni var þá ómögulegt að fá húsnæði á Hvammstanga, þar sem skrifstofur sveitarfélagsins eru.
„Ég er svo sem ekki á flæðiskeri stödd. Bý um þessar mundir í fínni íbúð frammi í Miðfirði, sem er um það bil 15 kílómetra frá Hvammstanga og ek þaðan til vinnu, sem þykir ekki mikið miðað við vegalengdir á höfuðborgarsvæðinu. Svo er ég alin upp í sveit og líkar vel í því umhverfi,“ segir Ragnheiður Jóna í samtali í Morgunblaðinu í dag. Á síðasta ári var hún framkvæmdastjóri hátíðahalda í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands.