„Þetta eru mjög sláandi og alvarlegar tölur“

Um 1% karlkyns lækna hafði upplifað kynferðislega áreitni í vinnu …
Um 1% karlkyns lækna hafði upplifað kynferðislega áreitni í vinnu síðastliðna þrjá mánuði árið 2018 og 13% á starfsævinni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Um 7% kvenkyns lækna höfðu upplifað kynferðislega áreitni í vinnu síðastliðna þrjá mánuði árið 2018 og 47% kvenkyns lækna einhvern tíma á starfsævinni. Þetta kemur fram í könnun á líðan og starfsháttum lækna sem Læknafélag Íslands lét gera í október árið 2018. Ólöf Sara Árnadóttir, handaskurðlæknir á Landspítalanum og formaður samskipta- og jafnréttisnefndar Læknafélags Íslands, greindi frá niðurstöðunni í dag á alþjóðlegri ráðstefnu um #met­oo-hreyf­ing­una sem hald­in er í Hörpu. 

Um 1% karlkyns lækna hafði upplifað kynferðislega áreitni í vinnu síðastliðna þrjá mánuði og 13% á starfsævinni. Könnunin nær til allra lækna sem eru skráðir í Læknafélagið. Ungir læknanemar einkum konur eru í mestri hættu á að verða fyrir kynferðislegri áreitni. Þess má geta að könnunin var gerð tæpu ári eftir að #metoo-byltingin náði hæstu hæðum hér á landi.  

„Þetta eru mjög sláandi og alvarlegar tölur varðandi kynferðislega áreitni. Við þurfum greinilega að vinna meira með þetta og breyta okkar starfsmenningu,“ segir Ólöf Sara. Hún segir niðurstöðurnar ekki hafa komið sér á óvart því kynferðisleg áreitni sé líka til staðar á meðal lækna. „Þetta er meinsemd sem er alls staðar í þjóðfélaginu þar sem valdaójafnvægi fyrirfinnst,“ segir hún.

Ólöf Sara Árnadóttir, handaskurðlæknir á Landspítalanum og formaður samskipta- og …
Ólöf Sara Árnadóttir, handaskurðlæknir á Landspítalanum og formaður samskipta- og jafnréttisnefndar Læknafélags Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Í læknastéttinni eru karlar í meirihluta í stjórnunarstöðum og þessu þarf meðal annars að breyta, að sögn Ólafar Söru. „Rannsóknir hafa sýnt að þar sem konur eru ofar og koma meira að stjórn er minna um kynferðislega áreitni. Þetta snýst um að breyta menningunni eins og alls staðar í samfélaginu og hafa enga þolinmæði gagnvart kynferðislegri áreitni.“ 

Hún bendir á að viðbrögð Læknafélags Íslands voru til fyrirmyndar eftir #metoo-byltinguna árið 2017 og vinnuhópur var skipaður þegar í stað sem heitir nú samskipta- og jafnréttisnefnd sem hún gegnir formennsku. Þar er unnið með kynferðislega áreitni og einelti og nefndin beitir sér fyrir jafnrétti á vinnustað almennt.

Ólöf Sara segir að ekki sé nóg að gert til að uppræta kynferðislega áreitni í ljósi þessarar nýju könnunar. „Þetta snýst um stjórnun. Ábyrgðin er stjórnenda. Það þarf að uppræta þessa menningu, bæta virðingu í samskiptum og breyta þessu valdaójafnvægi. Það er mikilvægt að brotin hafi afleiðingar fyrir gerendur t.d. útilokun frá fundum, kennslu. Það verða engar breytingar ef hegðunin hefur engar afleiðingar. Stjórnendur þurfa að skilja það,“ segir Ólöf Sara. 

Umræðan um kynferðislega áreitni þarf að halda áfram að vera opin og halda vel utan um einstaklingana sem verða fyrir kynferðislegri áreitni.  

Hér er hægt að fylgjast með ráðstefnunni í beinu streymi fer aftur í loftið kl. 15:30

Um 7% kvenlækna höfðu upplifað kynferðislega áreitni í vinnu síðastliðna …
Um 7% kvenlækna höfðu upplifað kynferðislega áreitni í vinnu síðastliðna þrjá mánuði árið 2018 og 47% kvenlækna einhvern tíma á starfsævinni. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert