Sjúkir bangsar og tuskudýr í lífshættu munu komast undir hendur verðandi lækna á sunnudaginn næsta þegar lýðheilsufélag læknanema stendur fyrir hinum árlega bangsaspítala. Hefur verkefnið verið haldið um árabil, raunar eitt elsta verkefni félagsins, og er tilgangurinn fyrst og fremst að koma í veg fyrir að börn ali með sér hræðslu í garð lækna og heilbrigðisstarfsfólks. Þetta segir Brynhildur K. Ásgeirsdóttir, læknanemi og einn stjórnarmanna lýðheilsufélags læknanema, í samtali við mbl.is.
Barnaspítalinn verður haldinn á heilsugæslustöðvunum við Efstaleiti, á Höfða og Sólvangi. Segir Brynhildur að heimsóknin fari þannig fram að barn komi með sinn bangsa, innriti hann og hitti svo bangsalækni sem vísar því inn á læknastofu. Þar skoði læknir bangsann og veitir honum þá aðhlynningu sem hann þarf á að halda. Segir Brynhildur að æskilegt sé að þeir sem fylgja barninu ræði við það áður um hvað amar að bangsanum. Hvort hann er með hálsbólgu, magapínu eða brotinn fót, sem dæmi.
„Bæði er þetta fyrir læknanema gert, til þess að þeir fái að æfa sig, en grunnurinn er að sporna gegn hræðslu barna við heilbrigðiskerfið,“ segir Brynhildur. Aðspurð segir hún að læknanemarnir sem þátt taka í verkefninu séu á fyrsta ári, og því sé þetta fyrsti „stóri viðburðurinn“ hjá læknanemum. Ekki þyki leiðinlegt að birta myndir af sér á samfélagsmiðlum í læknasloppnum í fyrsta skipti, bætir hún við.
Spurð hvernig bangsalæknarnir svokölluðu undirbúa sig fyrir heimsóknirnar segir Brynhildur að annars vegar fái þeir fyrirlestur frá reyndum barnalækni, sem gefi þeim ráð um hvernig best er að bera sig að í samskiptum við börnin og þess háttar, og svo haldi lýðheilsufélag lækna sýnikennslu. Spurð um leiðbeiningarnar nefnir Brynhildur sem dæmi að mikilvægt sé fyrir bangsalækni að reyna að vera opinn, ræða við barnið en ekki foreldrið, hrósa börnunum og bangsanum og reyna að gera upplifun barnsins létta og skemmtilega.
Sem fyrr segir, þá fer þetta fram á sunnudaginn 22. september frá kl. 10 til 16. Bangsaspítalainn verður staðsettur á þremur heilsugæslustöðvum á Höfuðborgarsvæðinu: