Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, ávarpaði afmælishátíð Geðhjálpar sem var formlega sett í dag í hátíðarsal Háskóla Íslands. Elísabet Jökulsdóttir listakona, Einar Þór Jónsson, formaður Geðhjálpar, og Svanur Kristjánsson tóku einnig til máls. Þá lék Ólöf Arnalds ljúfa tóna.
Listahátíðin nefnist Klikkuð menning og eru fjölbreyttir dagskrárliðir á hátíðinni. Langflest atriði á hátíðinni hafa einhverja tengingu við geðheilsu. Í viðtali við Hildi Loftsdóttur, verkefnastjóra listahátíðarinnar, við Morgunblaðið kemur fram að allir listamennirnir sem fram koma á hátíðinni eða sýna list sína þar eru á einn eða annan hátt tengdir umræðunni um geðheilsu.
Dagskrá Klikkaðrar menningar er að finna á www.klikkud.is en frítt er inn á alla viðburði hátíðarinnar.