Markmiðið að hámarka verðmætin

„Við starfsfólk Hörpu höfum unnið hörðum höndum að þessu verkefni …
„Við starfsfólk Hörpu höfum unnið hörðum höndum að þessu verkefni og einnig þétt með eigendum hússins, þ.e. ríki og borg, að því að finna raunhæfan rekstrargrundvöll til framtíðar,“Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu. mbl.is/Hari

„Markmið okkar er að búa þannig um hnútana að Harpa geti sem tónlistar- og ráðstefnuhús hámarkað alla möguleika sína samfélaginu til góða,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu. „Húsið og allir sem það nýta eru daglega að skapa hér verðmæti sem eru allt í senn samfélagsleg, efnahagsleg og menningarleg. Markmiðið er Harpa hafi þær forsendur í rekstri og starfsemi að hægt sé að hámarka þessi verðmæti. Þá á ég ekki síst við að hægt sé að bjóða upp á aðstöðu fyrir eins fjölbreytta tónlist og kostur er.“

Maxímús sýnilegri í Hörpu

Sú nýbreytni var að sögn Svanhildar tekin upp þetta starfsárið að bjóða upp á fjölskyldudagskrá allar helgar í vetur og er hluti viðburðanna undir merkjum Hörpu, auk þess sem um helmingur þeirra er ókeypis. „Um er að ræða sambland af samstarfsverkefnum og svo viðburðum sem aðrir standa algjörlega fyrir. Það er von mín að þessi fjölskylduvæna dagskrá verði upptakturinn að enn fjölbreyttari og fyllri dagskrá fyrir börn og fjölskyldur hér í Hörpu,“ segir Svanhildur og bendir á að í boði verði allt frá umfangsmiklum Sinfóníutónleikum fyrir börn yfir í Vísindasmiðjur frá Háskóla Íslands þar sem þátttakendur geta gert tilraunir með hljóð, ljós og ýmislegt sem tengist Hörpu.

„Viðburðirnir verða ýmist á laugardögum eða sunnudögum og er hægt að finna allt um þá á heimasíðu Hörpu. Við munum bjóða upp á skoðunarferðir og sögustundir með tónlistarmúsinni Maxímús Músíkús og er gaman að hann verði sýnilegri hér í húsinu enda dásamleg mús. Síðan verður boðið upp á leiklistarkennslu frá Leynileikhúsinu fyrir krakka á aldrinum 7-11 ára, tónleikaröðina Reikistjörnur sem unnin er í samstarfi við Klapp og Rás 2 og hefur göngu sína í Kaldalóni og ýmsa aðventutónleika auk þess sem Skoppa og Skrítla leggja undir sig Eldborg undir lok nóvember til að fagna 15 ára afmæli sínu, svo fátt eitt sé nefnt fyrir áramót,“ segir Svanhildur og bætir við:

„Meðal þess sem í boði verður eftir áramót er Stórsveitarmaraþon, Músíktilraunir í Norðurljósum, barnastund Sinfóníuhljómsveitar Íslands, uppfærsla Bjarna Hauks Þórssonar á Karíus og Baktus eftir Thorbjørn Egner í Kaldalóni og tónsköpunarverðlaunin Upptakturinn ásamt Barnamenningarhátíð í Reykjavík og hátíðinni Big Bang,“ segir Svanhildur og tekur fram að þar sé um að ræða evrópska tónlistarhátíð sem stingur sér niður í ýmsum borgum.

Tryggja gæði og fjölbreytni

Svanhildur bendir á að líkt og síðustu ár muni Harpa sjálf standa fyrir nokkrum völdum viðburðum, en 90% þeirra viðburða sem haldnir eru í Hörpu eru framleiddir af öðrum. „Rekstrarfélagið Hörpustrengir ehf., sem stofnað var í desember 2013, hefur þann tilgang að standa fyrir fáum völdum viðburðum sem marka spor í íslenskt tónlistar- og menningarlíf og myndu annars líklega ekki verða að veruleika,“ segir Svanhildur og bendir á að viðburðirnir séu oft unnir með völdum samstarfsaðilum. „Félagið gætir þess að standa ekki í beinni samkeppni við viðburðahaldara og fasta notendur hússins, en Harpa er heimili Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem er stærsti einstaki tónleikahaldarinn í húsinu, með frábæra dagskrá í vetur, Íslensku óperunnar og Stórsveitar Reykjavíkur,“ segir Svanhildur. Meðal fastra tónleikaraða sem Harpa kemur að eru svo Jazzklúbburinn Múlinn, Sígildir sunnudagar og Velkomin heim auk þess sem Reykjavík Classics er í boði yfir sumartímann.

Svanhildur bendir á að víða erlendis, hjá þeim tónlistarhúsum á Norðurlöndunum og í Evrópu sem Harpa vilji bera sig saman við, framleiði tónlistarhúsin sjálf mun fleiri viðburði en þekkist hérlendis. „Hjá til dæmis Elbphilharmonie í Hamborg, sem ég heimsótti nýlega, framleiðir húsið sjálft um 30% viðburða, um 30% eru framleidd af NDR Elbphilharmonie-hljómsveitinni og um 30% viðburða eru í höndum sjálfstæðra skipuleggjenda. Flest hús sem vilja standa undir nafni eiga það sammerkt að þau beita einhvers konar ráðum, hvort sem það er eigið viðburðahald, samstarfsverkefni eða dagskrárstefna, til að tryggja bæði gæði og fjölbreytni. Þetta viljum við gera með enn skýrari hætti,“ segir Svanhildur og tekur fram í þessu samhengi að á næstu mánuðum verði kynnt spennandi stefnumótun sem verið hefur í vinnslu síðustu misseri.

„Þegar horft er á hvað Harpa hefur verið að gera í viðburðahaldi í eigin nafni samanborið við nánast öll stóru tónlistarhúsin á Norðurlöndunum og í Evrópu, þá er það mjög lítið. Við erum mjög meðvituð um að það er ekki hlutverk hússins að stíga inn á svið sem aðrir geta sinnt, hvort heldur það er markaðslega eða listrænt. Í eigendastefnu hússins segir að Harpa eigi að stuðla að blómlegu tónlistarlífi á Íslandi, sem felur bæði í sér að styðja við íslenska tónlist og vera vettvangur fyrir það besta sem gerist í heiminum. Svo er spurning hvaða leiðir eru færar í ljósi langvarandi erfiðrar fjárhagsstöðu hússins til þess að uppfylla þetta hlutverk,“ segir Svanhildur, sem hefur síðan hún tók við starfi forstjóra fyrir tveimur árum lagt ríka áherslu á að ná sem bestum tökum á rekstri Hörpu.

Ávallt á heimsmælikvarða

„Við starfsfólk Hörpu höfum unnið hörðum höndum að þessu verkefni og einnig þétt með eigendum hússins, þ.e. ríki og borg, að því að finna raunhæfan rekstrargrundvöll til framtíðar. Það styttist í að húsið fagni 10 ára starfsafmæli, sem verður 2021. Á þeim átta árum sem liðin eru frá opnun hússins er fullreynt að það er ekki hægt að reka þetta stóra og dýra hús án stuðnings frá eigendum sínum. Rekstrarmódelið sem notast hefur verið við hérlendis þekkist hvergi í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við, hvort heldur er á Norðurlöndunum eða í Evrópu. Harpa er t.a.m. að greiða rúmar 300 milljónir króna í fasteignagjöld og það sjá það auðvitað allir að það er ekki hægt að hafa slíkan hagnað af tónlistar- og ráðstefnuhúsi að það standi undir slíkum gjöldum. En það kemur fleira til. Harpa er stórt og glæsilegt borgartorg, listaverk sem við erum öll stolt af að eiga og það tapa allir ef því er ekki haldið vel við.

Við viljum að Harpa sé ávallt á heimsmælikvarða. Okkar hlutverk er þannig að stækka möguleikana og búa til ný tækifæri, bæði fyrir Reykjavík og Ísland, íslenska menningu og ferðaþjónustu. Ég er bjartsýn á að með þessari nýju stefnumótun sem við höfum unnið í samstarfi við mjög breiðan hóp notenda, fólks úr menningar- og atvinnulífi auk fulltrúa eigenda, náum við skynsamlegri lendingu til framtíðar,“ segir Svanhildur og tekur fram að hún leyfi sér að vona að allir séu sammála um að núna sé tími til kominn að leiðrétta og endurskoða rekstrarmódel Hörpu.

Bell og ballettinn snúa aftur

Að sögn Svanhildar standa fyrrnefndir Hörpustrengir fyrir tveimur viðburðum þetta haustið. „Annars vegar eru það tónleikar í Eldborg 20. október þar sem hinn óviðjafnanlegi fiðlusnillingur Joshua Bell kemur fram ásamt heimsklassa píanistanum Alessio Bax með glæsilega efnisskrá,“ segir Svanhildur og tekur fram að ánægjulegt sé að fá Bell aftur í Hörpu. „Hann var hér fyrir tveimur árum og lék þá einleik og leiddi kammersveitina Academy of St. Martin in the Fields á ógleymanlegum tónleikum sem fengu einróma lof áheyrenda sem og gagnrýnenda. Hann var svo hrifinn af Eldborg og Hörpu að hann hafði þá þegar orð á því að hann langaði að koma aftur. Ég vona að unnendur gæðatónlistar láti þessa tónleika ekki framhjá sér fara,“ segir Svanhildur og bendir á að Bell hafi á ferli sínum komið fram í öllum helstu tónlistarhúsum heims.

„Hinn viðburðurinn er heimsókn St. Pétursborgar-ballettsins sem setur upp Svanavatnið við tónlist Tsjajkovskíjs í nóvember. Sýndar verða þrjár sýningar í Hörpu þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur undir og síðan fer sýningin norður í Hof. Þetta er í sjöunda sinn sem St. Pétursborgar-ballettinn kemur hingað til lands. Þetta er orðinn ómissandi upptaktur að aðventunni,“ segir Svanhildur og tekur fram að sýningin sé mjög falleg og fjölskylduvæn.

Valkyrjan og Víkingur

Af öðrum áhugaverðum viðburðum sem væntanlegir eru í Hörpu í vetur nefnir Svanhildur tónleika Ungsveitar SÍ, Nýdanskrar, Nat og Natalie tónleika Stórsveitarinnar og tónleikauppfærslu á Evítu. „Svo er alltaf sérstaklega gaman þegar Víkingur Heiðar Ólafsson kemur fram í Hörpu. Hann er nýbúinn að taka upp næstu plötu sína hér hjá okkur og kemur fram á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands í nóvember áður en þau leggja í tónleikaferð til Þýskalands og Austurríkis. Einn af hápunktum starfsársins verður svo klárlega uppfærslan á Valkyrjunni eftir Wagner í maí á næsta ári þar sem Íslenska óperan, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Listahátíð í Reykjavík sameina krafta sína í margföldu afmælishaldi. Það er því ótrúlega skemmtilegur og nærandi tími fram undan í Hörpu í haust og vetur.“

Viðtalið við Svanhildi Konráðsdóttur forstjóra Hörpu birtist fyrst í Morgunblaðinu laugardaginn 14. september. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert