Annasamur dagur hjá Umhverfishetjunni

Undanfarna daga hefur Umhverfishetjan vakið athygli í þjóðfélaginu. Í dag var hún að störfum í Skeifunni þar sem verkefnin voru mörg. Hetjan sem er enn sem komið er nafnlaus losaði um niðurföll, lagfærði hellulagnir og plokkaði rusl og veitti mbl.is sjónvarpsviðtal í leiðinni.

Skilaboð hetjunnar eru einföld: „Allir geta verið umhverfishetjur!“. 

Í myndskeiðinu má sjá hetjuna að störfum og um leið sjá hversu mikið hver og einn getur lagt af mörkum til að gera nærumhverfið betra. 

Uppátæki hetjunnar hafa augljóslega vakið athygli. „Thank you superhero!“ heyrðist hrópað úr bifreið sem ekið var fram hjá hetjunni þar sem hún gekk um Skeifuna í leit að næsta verkefni.

En hetjan sækist ekki eftir athygli einungis athyglinnar vegna. „Það er valdeflandi að láta gott af sér leiða,“ sagði hún eftir að hafa lagfært hellulögn sem gengin var úr skorðum á einni gangstéttinni, vitandi það að í framtíðinni þegar leið hennar liggur um Skeifuna mun hún alltaf minnast þess þegar Umhverfishetjan lagaði hellulögnina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert